IceDocs fer vel af stað á Akranesi

 

Heiðar Már Björnsson, Ingibjörg Halldórsdóttir og Hallur Örn Árnason standa á bakvið IceDocs.

IceDocs, eða Iceland Documentary Film Festival, lauk síðastliðinn sunnudag. Alls voru 59 alþjóðlegar heimildamyndir sýndar á hátíðinni, auk sérviðburða, vinnustofu fyrir ungmenni og sérstakrar dagskrár fyrir börn. Heimildamyndir Þorgeirs Þorgeirsonar, sem Kvikmyndasafn Íslands hefur nýlega skannað og lagfært, voru sýndar og einnig var sérstök dagskrá um feril Þorgeirs.

Dómnefndarverðlaun voru veitt á undan sýningu lokamyndarinnar sem var hin danska Human Shelter eftir Boris Bertram.

All Inclusive eftir svissnesku leikstýruna Corinu Schwingrube Ilic hlaut verðlaun fyrir bestu stuttmynd. Í flokki mynda í styttri lengd var það hin dansk/norska Haunted eftir Christian Einshøj sem hlaut verðlaun. Norður-Makedóníska myndin Honeyland fékk sérstaka viðurkenningu dómnefndar, en bresk/hollenska myndin Bruce Lee and the Outlaw eftir Joost Vandebrug var sigurvegari aðalkeppninnar.

Í dómnefnd sátu Anna Þóra Steinþórsdóttir kvikmyndagerðarkona, Diane Henderson einn listrænna stjórnenda Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Edinborg og írski gagnrýnandinn Jessica Kiang.

Alls sóttu hátíðina heim á sjötta tug erlendra gesta.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR