Breytingar á endurgreiðslukerfinu áformaðar í nýjum frumvarpsdrögum

(Samsett mynd: Vísir)

Í nýjum frumvarpsdrögum eru lagðar til breytingar á endurgreiðslukerfinu í þá veru að hætt verði að hætt verði að styðja spjallþætti, raunveruleikaþætti og skemmtiþætti, auk þess sem þak verði sett á ársgreiðslu til einstakra verkefna, að öll verkefni lúti endurskoðun á kostnaði og að skilin á milli endurgreiðslukerfisins og úthlutunar úr Kvikmyndasjóði verði skýrari. Frumvarpsdrögin hafa verið birt á Samráðsgátt stjórnvalda, þar sem hægt er að senda inn umsögn um þau (drögin er undir hlekk í hægri dálki).

Í kynningu á Samráðsgáttinni segir um drögin:

Fyrirhugað er að breyta lögum nr. 43/1999 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Markmiðið með lagasetningunni er að styðja áfram við kvikmyndagerð, þó með því að þrengja þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess fá endurgreiðslu. Það verður gert á þann hátt að aukin áhersla verður lögð á uppbyggingu kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi með því að laða að erlenda aðila til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hér á landi. Þá er lagt til að breyta lögum og reglugerð þannig að skilyrði fyrir endurgreiðslu takmarkist við kvikmyndir í fullri lengd, leiknar sjónvarpsmyndir eða röð leikinna sjónvarpsþátta og heimildarmyndir. Ef af þessum breytingum verður falla út spjallþættir, raunveruleikaþættir og skemmtiþættir, en á undanförnum árum hafa endurgreiðslur til slíkra þátta aukist töluvert. Í skýrslu sem starfshópur skilaði til ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á vormánuðum var lagt til að þak verði sett á ársgreiðslu til einstakra verkefna, að krafa verði um að öll verkefni lúti endurskoðun á kostnaði og að skilin á milli endurgreiðslukerfisins og úthlutunar úr Kvikmyndasjóði verði skýrari. Með þessum tillögum er bæði lögð áhersla á bætta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til endurgreiðslna og á lækkun heildarupphæðar endurgreiðslna. Tillögurnar miða að því að horfa í auknum mæli til upphaflegs markmiðs og tilgangs laganna og gera viðeigandi breytingar á kerfinu með það fyrir augum að gera greinina sjálfbærari til lengri tíma.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR