Iceland Documentary Film Festival (IceDocs) fer fram á Akranesi í fyrsta sinn dagana 17.-21. júlí næstkomandi. Á dagskrá eru um 40 heimildamyndir frá öllum heimshornum, en auk þess verða sérstakar sýningar á verkum Þorgeirs Þorgeirsonar í samvinnu við Kvikmyndasafn Íslands.
IceDocs hyggst reglulega standa fyrir sérstöku brautryðjendaprógrammi þar sem meiningin er að kynna kvikmyndaáhugafólki verk íslenskra kvikmyndagerðarmanna fyrri kynslóða. Að þessu sinni verða verk Þorgeirs Þorgeirsonar kynnt og hefur Kvikmyndasafnið af þessu tilefni skannað myndirnar inn í nýjum hágæða skanna safnsins og gert þær upp.
Þorgeir Þorgeirson lærði kvikmyndagerð í Prag í hinum virta FAMU kvikmyndaskóla, en hann var einna fyrstur Íslendinga til þess að stunda nám í kvikmyndagerð og hafa kvikmyndagerð að aðalstarfi. Höfundareinkennum Þorgeirs sem kvikmyndagerðarmanns má lýsa
sem blöndu af realískum kvikmyndatökustíl og áberandi áhrifamikilli klippingu. Útkoman er einstök, sérstaklega þegar litið er til verka annarra kvikmyndagerðarmanna á Íslandi frá þessum tíma.
Myndirnar sem sýndar verða á hátíðinni eru Hitaveituævintýrið (1963), Grænlandsflug (1966), Maður og verksmiðja (1967), Að byggja (1967) og Róður (1972).
Sýningar á verkum Þorgeirs verða 18. júlí kl. 20:00 í Bíóhöllinni á Akranesi og sunnudaginn 21. júlí í kvikmyndasal Tónbergs á Akranesi. Ekkert kostar inn á sýningarnar, en taka þarf frá miða á heimasíðu hátíðarinnar icedocs.is. Einnig verða myndirnar til sýnis í nýjum
sýningarsal Byggðarsafns Akranes dagana 19.-21. júlí.
Ingibjörg Halldórsdóttir, Heiðar Már Björnsson og Hallur Örn Árnason eru helstu aðstandendur hátíðarinnar en fræðast má nánar um þau og aðra aðstandendur hér.
Smelltu hér til að skoða dagskrána.
Smelltu hér til að skoða sýningartíma og panta eða kaupa miða.