Það mikla þarfaþing, Lumiere gagnagrunnurinn, sem heldur utan um margskonar upplýsingar um evrópskar kvikmyndir, hefur nú opnað nýja þjónustu, Lumiere VOD, sem sýnir hvar evrópskar kvikmyndir eru fáanlegar á efnisveitum innan álfunnar. Alls má finna 95 íslenska titla í gagnagrunninum.
Sumir þeirra eru reyndar með óbeina tengingu við Ísland, samframleiðslumyndir og annað, en hér má skoða þessa titla.
Af einhverjum ástæðum eru engar íslenskar efnisveitur á lista Lumiere VOD.
Um þessa nýju þjónustu segir á vef Kvikmyndamiðstöðvar:
Framkvæmdastjórn ESB ásamt European Audiovisual Observatory opnuðu í gær nýjan gagnagrunn um evrópskar kvikmyndir, í því skyni að auka gagnsæi varðandi VOD (video-on-demand) þjónustu. Verkefninu er stjórnað af European Audiovisual Observatory sem Creative Europe styður við.
Gagnagrunnurinn gefur bæði almenningi og fagaðilum tækifæri til að sjá hvar sé hægt að nálgast evrópskar kvikmyndir á vefnum.
Gagnagrunnurinn sem kallast LUMIERE VOD hefur að geyma upplýsingar um yfir 35 þúsund evrópskar kvikmyndir sem má finna á VOD leigum í 28 Evrópulöndum. Þar til nú hefur ekki verið til staðar slíkur gagnagrunnur yfir evrópskar kvikmyndir.
Hér má lesa nánar um gagnagrunninn.
Sjá nánar hér: Nýr gagnagrunnur um evrópskar kvikmyndir settur á fót: LUMIERE VOD