Sjónvarp Símans Premium hefur sent frá sér nýja heimildaþáttaröð, Skandal, þar sem þýski rannsóknarblaðamaðurinn Boris Quatram leitar svara í Geirfinnsmálinu, sem íslenskum yfirvöldum tókst ekki að upplýsa en frömdu þess í stað dómsmorð á sex ungmennum, eins og segir í tilkynningu.
Quatram fer aftur til upphafs rannsóknarinnar og skoðar fyrst það sem lögreglan lét vera að rannsaka og leitar svara um af hvaða hvötum það var gert. Sú vegferð dregur hann á myrkrar slóðir íslensks samfélags, þar sem margar nýjar og óvæntar staðreyndir koma í ljós. Sumir þræðirnir teygja sig langt út fyrir Ísland. Þessi áhrifamikla saga dómsmorða, sem hvíldu sem mara á íslensku þjóðfélagi um fjögurra áratuga skeið er sögð í fjórum þáttum.
Ingvar Þórðarson hjá Neutrinos Productions og Júlíus Kemp hjá Kvikmyndafélagi Íslands eru framleiðendur þáttaraðarinnar.