[Stikla] „Fullveldis Festival“ á fjörtíu mínútum

Frá tökum: Úlfur Grönvold leikmyndahönnuður og Berglind Pétursdóttir (Berglind Festival).

Innslög Berglindar Pétursdóttur (Berglind Festival) um fullveldisafmælið, sem birtust í Vikunni Gísla Marteins Baldurssonar á haustmánuðum verða auk viðbótarefnis sett saman í eina 40 mínútna kvikmynd, Fullveldis Festival Sagan öll, sem sýnd verður á RÚV þann 21. desember. Steingrímur Dúi Másson leikstýrir og framleiðir.

Í myndinni, líkt og innslögunum, fer Berglind Festival í gegnum sögu Íslands á yfirborðskenndan hátt frá árinu 1918 og til okkar tíma.

„Það fyrsta sem ég sá þegar ég las yfir handritið var hve mikil vinna mundi fara í hvert einasta innslag en þau eru bara 5-7 mínútur að lengd en í raun var fjöldi sena og viðtala  líkt og um a.m.k. 30 mínútna þátt væri að ræða auk fjölda „establishing skota“ og drónaskota. Að auki vildum við vera með tveggja kameru vinnslu á flestum viðtölum og lýsingu og gæðum eins og það gerist best. Það er auðvitað afar óvenjulegt að taka t.d. upp viðtal við forsætisráðherra í stjórnarráðinu, lýsa og stilla upp í tveggja kameru vinnslu og nota svo eina mínútu af því, það er í rauninni alveg fáránlegt en mér fannst það mjög áhugavert um leið. Þannig að þegar ég las handritið vissi ég að hver þáttur mundi krefjast mjög mikillar vinnu sem færi að vissu leyti í súginn sem ég held þó að hafi skilað sér því viðbrögðin við Fullveldis Festival voru mjög góð,“

segir Steingrímur Dúi um verkefnið og bætir við:

„Berglind Festival er alteregó Berglindar Pétursdóttur, í stíl við t.d. Chris Morris, Ali G og Silvíu Nótt. Það sem mér finnst áhugavert er að þessi karakter hennar er mjög nálægur hennar eigin persónu, svo það er stundum erfitt að greina hvora persónuna þú ert að taka upp og það var ákveðin áskorun. Handritshöfundarnir voru undir áhrifum frá bresku mockumentary þáttaröðinni Cunk On Britain með Diane Morgan svo við vorum með vissar tilvísanir í þá seríu en gættum þess auðvitað að búa til okkar eigin stíl og skapa eitthvað nýtt.“

Steingrímur Dúi Másson leikstjóri og framleiðandi og Grímur Jón Sigurðsson tökumaður við upptökur í Stjórnarráðinu.

Handrit sömdu þau Berglind Pétursdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Ragnheiður Thorsteinsson, en til ráðgjafar voru Bergsteinn Sigurðsson og Atli Fannar Sveinsson. Grímur Jón Sigurðsson annaðist kvikmyndatöku og Úlfur Grönvold gerði leikmynd. Ragna Fossberg sá um förðun og Margrét Grétarsdóttir og Helga Ólafsdóttir voru til aðstoðar við dagskrárgerð.

Að neðan má sjá stiklu verksins.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR