spot_img

Robert Richardson um „Adrift“ og samstarfið við Baltasar

Robert Richardson, tökumaður Adrift, nýjustu myndar Baltasars Kormáks, er einn af virtustu kvikmyndatökumönnum í bandarískum kvikmyndaheimi síðasta aldarfjórðung eða svo. Hann hefur alls níu sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna og hefur hlotið þau þrisvar; fyrir JFK (1991), The Aviator (2004) og Hugo (2011). Richardson er hvað kunnastur fyrir langt samstarf sitt við Oliver Stone, en saman hafa þeir gert 11 kvikmyndir, þar á meðal Platoon, JFK, Wall Street, Born on the Fourth of July og Nixon. Þá hefur hann filmað sjö mynda Martin Scorsese, þar á meðal Casino og Bringing Out the Dead auk The Aviator og Hugo. Richardson hefur einnig verið tökumaður allra mynda Quentin Tarantino síðan Kill Bill, en alls hafa þeir gert sex myndir saman og sú sjöunda er nú í tökum. Það var því ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða við þennan merka tökumann sem ég hef haft í hávegum allar götur síðan ég sá JFK (sem er stórkostleg og gríðarlega fjölbreytt myndræn upplifun) í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar – og ekki verra að hann var afar skemmtilegur viðmælandi, fullur af kraftmikilli kátínu. Hér fer spjall okkar.

ÁS: Hvernig nálguðust þið Baltasar hina sjónrænu frásögn myndarinnar?

RR: Baltasar nálgast hlutina eins og brautryðjandi, hann vill koma áhorfandanum fyrir í miðju sögusviðsins. Hans nálgun var sú að gera þetta eins erfitt og hægt var, láta virkilega reyna á alla og skapa þannig kraftmikla og raunsæislega áferð, ágengan heimildamyndastíl. Hann vildi fá langar tökur þar sem það var hægt og við gerðum það þegar við átti. Við vildum forðast falleg skot fegurðarinnar vegna, en leggja áherslu á að draga fram þessa mögnuðu reynslu og það sem söguhetjan, Tami, gengur í gegnum.

ÁS: Hverjar voru helstu áskoranirnar á tökutímanum?

RR: Það var virkilega erfitt að filma um borð í bát útá opnu hafi eins og við gerðum mestallan tímann. Þetta reynir á því að samveran við alla, leikarana, leikstjórann og starfsliðið, er auðvitað afar náin í þröngum aðstæðum. Við glímdum töluvert við sjóveiki. Eftir fyrsta daginn passaði fólk sig á því að vera ekki á bátnum nema þess nauðsynlega þurfti. Þennan dag hafði Baltasar siglt með okkur langt út á haf, sífellt lengra og lengra. Hann var að fylgjast með teyminu, allir voru mjög áhugasamir um að vera þarna. Langflestir voru neðan þilja enda lítið pláss uppi. Undir lok dagsins voru gólfin þakin ælu og allar fötur einnig, baðherbergin líka, allir meira og minna grænir í framan. En þetta var frábært, ég dýrkaði þessa spennu og hvernig Baltasar reyndi á þolgæði allra til hins ýtrasta. Svona er Baltasar, þú kannast við hann, hversu ástríðufullur hann getur verið.

ÁS: Já, geturðu varpað ljósi á samstarf ykkar?

RR: Já, ég get til dæmis sagt þér skemmtilega sögu frá upphafi tökutímans. Við vorum við langt útá sjó að taka upp skot í hvössum vindi í öðrum bát sem fylgdi eftir bátnum sem parið var á. Öldurnar gusuðust stöðugt yfir okkur og það var í raun ekki hægt að mynda neitt. Og þegar ég leit til Baltasars var hann skellihlæjandi þegar ég kom útúr öldunni.  Hann vissi alveg að ég væri ekki að ná neinum skotum inn, hann var að fá því svarað hvort ég myndi láta það stoppa mig þegar gæfi á eða vinna mína vinnu þrátt fyrir aðstæðurnar. Ég vissi að þetta var prófraun, en ég var ekki á því að láta smá sjógang slá mig útaf laginu, mér var alveg sama þótt öldurnar væru ógnarháar, ég hélt bara áfram að filma! Samstarfið við Baltasar var frábært, við vorum eins og  bræður. Ég lagði fram mínar hugmyndir um hvernig ætti að filma tilteknar senur en hann varð að trúa því að það gæti gengið upp. Mikið af tökunum voru handheldar við þröngar aðstæður þannig að oft réðist þetta af dómgreind leikaranna og mín hverju sinni, það var ekki auðvelt að sviðsetja hlutina nákvæmlega svo að hann varð að trúa á það hvernig ég beitti myndavélinni og hverju ég reyndi að ná fram. Mér finnst að við höfum náð að mynda sterkt samband okkar á milli og ég vona svo sannarlega að við getum unnið meira saman í framtíðinni, hann er frábær leikstjóri.

Robert Richardson og Baltasar Kormákur við tökur á Adrift (Mynd: Heimir Sverrisson).

ÁS: Mér skilst að þið hafið reynt að forðast sjónrænar brellur eins og kostur var.

RR: Já, en það var auðvitað erfitt að komast hjá því þegar kom að fellibylnum vegna þess að sannleikurinn er sá að þú getur ekki filmað í sex metra ölduhæð, hvað þá 23 metra eins og parið lenti í. Við urðum því að nota tölvubrellur varðandi fellibylinn sjálfan. En auðvitað forðuðumst við það eins og mögulegt var.

ÁS: Hversu snúið var að fella saman vettvangstökurnar og brellurnar?

RR: Ja, nú þarft þú að skoða myndina og segja mér. Sjálfum finnst mér hafa tekist vel til, en vatn er ekki auðvelt að gera. Það sem Daða (Einarssyni hjá RVX) og Baltasar tókst að gera – og ég hef ekki séð betur gert með vatn áður  – var að útfæra það myndmál sem við höfðum skapað í tökunum og skapa þannig sterka sjónræna heild. Þetta tók vissulega sinn tíma, til dæmis er verulegur munur á stiklunni og svo lokaútkomunni í myndinni, en mér finnst þetta hafa gengið mjög vel upp.

ÁS: Margir tökumenn nefna þessi misserin hin auknu áhrif sjónrænna brella á kvikmyndatöku og hina sjónrænu upplifun og hvernig þetta hefur breytt hlutverki tökumannsins. Hver er þín skoðun á þessu?

RR: Ég held að þetta snúist ekki aðeins um sjónrænar brellur heldur hina stafrænu eftirvinnslu almennt. Allt þetta snýst um að taka myndrænar upplýsingar og eiga við þær. Í litgreiningunni núna er til dæmis hægt að breyta lit á búningum ef vilji er til. Jafnvel þó að þú sért ekkert sérstakur tökumaður er í flestum tilfellum hægt að búa til skot sem líta vel út. Þú getur gert myndirnar sem við skjótum svo miklu betri með stafrænni litgreiningu. Sama er með sjónrænar brellur en almennt eru þær þó notaðar til að styðja myndina. Til dæmis ef þú ert að gera mynd um þrumuguðinn Þór þá verður ekki hjá því komist að nota mikið af green screen þar sem umhverfið er að miklu leyti skapað eftirá. Fyrir mér snýst þetta um upplifun áhorfandans; að hann verði sem minnst var við brellurnar. Adrift er þannig mynd að ekki hefði verið hægt að gera myndina án þeirra, en ég mig langar að vita hvernig þú sem áhorfandi upplifir þetta. Ég var að horfa á myndina í fyrsta skipti í gær með áhorfendum og ég stóð sjálfan mig að því að spyrja hvernig í ósköpunum ég hefði farið að því að ná einhverju tilteknu skoti, þar til ég mundi að þarna voru sjónrænar brellur í spilinu. Daði gerði þetta ótrúlega vel, þetta var svo samofið því sem við skutum að ég hafði gleymt því að þetta hafði upphaflega verið gert fyrir framan grænt tjald! Slík vinna er auðvitað afbragð og þegar upp er staðið er þetta kjarni málsins; að áhorfandinn finni ekki fyrir sjónrænum brellum.

Baltasar Kormákur ásamt Robert Richardson tökumanni (til hægri) við tökur á Adrift á Fiji eyjum (Mynd: Heimir Sverrisson).

ÁS: Hver er kjarninn í sambandi leikstjóra og tökumanns?

RR: Ég er þeirrar skoðunar að þú verður að sýna leikstjóranum trúmennsku. Ef trúmennskan er við einhvern annan ertu að gera mistök. Ég gerði eitt sinn mynd með Robert De Niro sem leikstjóra, The Good Shepard. Ég var mjög trúr Bob, en einn daginn áttum við samtal. Hann vildi filma tiltekið skot á ákveðinn hátt en ég mótmælti, sagði að við hefðum þegar gert mótskotið á annan hátt og þau myndu ekki passa saman. Þá kom hann fast upp að mér, herbergið sem við vorum í tæmdist og eftir stóðum við tveir og hann breyttist í þann De Niro sem þú kannast við úr Raging Bull eða Taxi Driver. Og hann hallaði sér að mér þannig að aðeins 10-12 sentimetrar skildu okkur að og ég varð skelkaður; ég meina þetta var gaurinn sem ég hafði oft séð í bíómyndum en ekki sá De Niro sem ég hafði verið að vinna með fram að þessu. En hann segir við mig: það er lína og þú ert annaðhvort mín megin við hana eða hinumegin. Það er ekkert grátt svæði. Og þetta fyrir mér er það mikilvægasta. Þú ákveður strax í upphafi að þú sért í liði með leikstjóranum. Leikstjórinn sem ég vinn með þarf að hafa minn fulla stuðning alltaf. Ég get ekki ímyndað mér neina aðra leið.

ÁS: Þú hefur margsinnis unnið með ýmsum þekktustu leikstjórum Bandaríkjanna, til dæmis Martin Scorsese, Quentin Tarantino og Oliver Stone. Geturðu varpað ljósi á hvernig þú byggir upp traust gagnvart þeim?

RR: Það getur auðvitað tekið sinn tíma að mynda sterk tengsl. Með Quentin til dæmis þá þurftum við að ganga í gegnum smá tilhugalíf, rómans. Smám saman byggðum við upp mjög náið samband sem varð sterkara með hverri mynd. Það var svolítið öðruvísi með Marty (Scorsese), hann er svolítið fjarlægari, hann myndar ekki tengsl á sama hátt og til dæmis Oliver (Stone) eða Quentin gera. Þegar þú vinnur fyrir Marty ertu hluti af hans kirkju, hann er páfinn og við virðum páfann og reynum að gera okkar besta til að gera honum til hæfis. Þannig ávinnur maður sér traust hans. Varðandi Oliver gegnir allt öðru máli, við byrjuðum saman að gera kvikmyndir, fyrst Salvador og strax í framhaldi af því bauð hann mér að filma Platoon. Hann vissi að ég myndi gera það sem þyrfti og út frá því urðum við afar nánir enda unnum við saman í fjölmörg ár. Hann er á vissan hátt föðurímynd fyrir mér, eða eldri bróðir. En semsagt, þetta er mjög mismunandi og fer eftir viðkomandi.

ÁS: Þú ert kunnur fyrir mjög afgerandi stíl, en þú hefur líka sagt að þú reynir ávallt að vera í hlutverki kamelljónsins gagnvart áherslum leikstjórans. Hvernig finnurðu jafnvægið þarna á milli?

RR: Ég held að þegar þú horfir á Adrift þá sérðu ákveðna þætti þarna, en þessi stíll á lýsingu sem fólk talar um sem minn stíl, hann er ekki endilega þar enda kölluðu þarfir þessarar myndar á aðra nálgun. Baltasar lagði grunninn og mitt hlutverk var að fylgja þeirri stefnu. Ég lít ekki svo á að ég þurfi að gera það sem ég hef gert áður í hverri mynd, þetta er spurning um hvað passar. Áherslan í Adrift var á raunveruleikann, stíl heimildamynda. Það má því segja að í þessari mynd hafi ég sagt skilið við mitt eldra sjálf og skapað nýtt.

ÁS: Mér skilst að þú sért núna að skjóta Once Upon a Time in Hollywood með Tarantino. Hverju megum við eiga von á?

RR: Ég held að þú munir sjá Quentin uppá sitt besta í þessari mynd. Væntumþykja hans gagnvart Los Angeles mun koma skýrt fram. Hún verður frábrugðin myndum hans á undanförnum árum. Það er minni áhersla á ofbeldi, meiri á samtöl og persónur og sögusviðið er Hollywood á miklu breytingaskeiði. Þetta verður afar stór mynd í sniðum.

(Adrift er núna í sýningum. Stikluna má sjá hér að neðan.)

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR