Börkur Sigþórsson leikstjóri hefur verið ráðinn til að leikstýra þremur fyrstu þáttunum af sex í nýrri spennuþáttaröð fyrir BBC, sem nefnist Baptiste. Þættirnir eru afleggjari af spennuþáttunum vinsælu The Missing. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Þar segir meðal annars:
Það er í mörg horn að líta hjá Berki Sigþórssyni leikstjóra þessa dagana. Hann frumsýnir sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd í næstu viku, spennumyndina Varg, og lýkur síðan tökum á sínum hluta í annarri þáttaröð af Ófærð, sem verður sýnd í haust. Í beinu framhaldi fer hann til Bretlands og hefur undirbúning á tökum á spennuþáttaröðinni Baptiste sem BBC framleiðar.
Baptiste er afleggjari eða „spin-off“ af sjónvarpsþáttunum The Missing, sem hafa notið mikilla vinsælda um allan heim — þar á meðal hér á Íslandi — og hlotið tilnefningar til Golden Globe, BAFTA og Emmy-verðlauna. Þar bregður Frakkinn Tchéky Karyo sér aftur í hlutverk franska rannsóknarlögreglumannsins Julian Baptiste, sem þættirnir eru kenndir við.
„Þetta eru glæpaþættir, gerast í Amsterdam og þarna fylgjumst við með lífi og störfum Julian Baptiste,“ segir Börkur og nefnir að það hafi meðal annars verið fyrir tilstilli Ólafs Darra Ólafssonar, sem hann leikstýrði í Ófærð, að hann hreppti hnossið.
Sjá nánar hér: Börkur leikstýrir spennuþáttaröð fyrir BBC