Stikla kvikmyndarinnar Vargur eftir Börk Sigþórsson hefur verið opinberuð og má sjá hér. Myndin verður frumsýnd 4. maí næstkomandi. Sena dreifir á Íslandi.
Gísli Örn Garðarsson og Baltasar Breki Samper fara með aðalhlutverkin, bræður sem báðir eru í bráðum fjárhagsvanda en af mismunandi ástæðum. Annar þarf að koma sér undan handrukkurum vegna fíkniefnaskuldar, en hinn hefur dregið sér fé á vinnustað til að fjármagna dýran lífsstíl. Saman ákveða þeir að grípa til ólöglegra aðgerða til að koma sér á réttan kjöl. Aðalkvenhlutverkin eru í höndum tveggja erlendra leikkvenna. Pólska leikkonan Anna Próchniak leikur burðardýr bræðranna og danska leikkonan Marijana Jankovic leikur rannsóknarlögreglukonu.
Þetta er fyrsta bíómynd Barkar, sem áður hefur leikstýrt hluta af þáttaröðinni Ófærð sem og sjónvarpsþáttum í Bretlandi. RVK Studios framleiðir.