Sagafilm hefur sent frá sér tilkynningu í kjölfar umræðu um áreitni, ofbeldi og mismunun í kvikmyndagerð og sviðslistum. Þar kemur meðal annars fram að fyrirtækið hafi sett sér jafnréttis- og jafnlaunastefnu sem nái til allra starfsmanna þess sem og verktaka.
Tilkynningin er svohljóðandi:
Í fjölmiðlum í gær kom fram áskorun um að forráðamenn í leikhúsum, framleiðslufyrirtæki og yfirvöld tækju fast á vanda sem er vegna áreitni í sviðlistum og í kvikmyndagreininni.
Sagafilm tekur þessari áskorun.
Sagafilm setti sér jafnréttis- og jafnlaunastefnu fyrr á árinu sem nær til allra starfsmanna fyrirtækisins. Þar kemur fram að kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða einelti eru aldrei liðin hjá Sagafilm. Markmið stefnunnar er að stuðla að því að allt starfsfólk hafi jöfn tækifæri og koma í veg fyrir hvers konar mismunun sem byggir á kyni, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Við viljum að komið sé fram við alla starfsmenn af sanngirni og virðingu.
Í tengslum við innleiðingu jafnréttis- og jafnlaunastefnunnar, var innleidd viðbragðsáætlun til að lýsa viðbrögðum ef upp koma tilfelli sem gætu falið í sér áreitni eða einelti. Stefnan og viðbragðsáætlunin voru unnin í samvinnu við sérfræðinga hjá Attentus mannauður og ráðgjöf og Vinnuvernd. Sagafilm hefur gert samkomulag við fyrirtækin um áframhaldandi vinnu og til að taka við tilkynningum komi upp slík mál í fyrirtækinu eða í starfsemi á vegum þess. Haldnir hafa verið kynningarfundir fyrir starfsfólk fyrirtækisins um áreitni og einelti á vinnustöðum.
Sagafilm mun jafnframt láta stefnuna ná til allra þeirra sem vinna í verktöku fyrir fyrirtækið og verður ákvæði um að viðkomandi aðilar undirgangist stefnuna sett inn í alla framtíðarsamninga fyrirtækisins. Öllum sem vinna að verkefnum fyrir Sagafilm verður tryggður aðgangur að sömu sérfræðingum og þeir 30 starfsmenn sem eru fastráðnir hjá fyrirtækinu.
Stjórn og stjórnendur félagsins hafa skuldbundið sig til að framfylgja jafnréttis- og jafnlaunastefnu félagsins og leggja ríka áherslu á að kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða einelti verður aldrei liðin hjá Sagafilm.
Innleiðing á jafnréttis- og jafnlaunastefnunni er fyrsta skrefið í lengra ferli við að breyta kerfi sem hefur verið lengi við lýði og þöggun hefur ríkt um. Mynda þarf breiða samstöðu í kvikmyndagreininni um að breyta og Sagafilm lýsir sig reiðubúið til að taka þátt í því starfi.
Stefnan og viðbragðsáætlunin eru aðgengileg á ensku og íslensku á heimasíðu Sagafilm.
Reykjavík, 28. nóvember 2017
Stjórn Sagafilm:
Ragnar Agnarsson, Ragna Árnadóttir, Valgerður Halldórsdóttir, Árni Geir Pálsson, Kjartan Þór Þórðarson
Hilmar Sigurðsson, forstjóri og Hrönn Þorsteinsdóttir, fjármála- og mannauðsstjóri