„Óþekkti hermaðurinn“ stefnir í metsölu

Rammi úr The Unknown Soldier.

Finnska bíómyndin The Unknown Soldier (Tuntematon sotilas) nýtur mikillar hylli í kvikmyndahúsum þarlendis, en yfir 625 þúsund gestir hafa séð hana eftir fjórar vikur í sýningum. Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp eru meðal meðframleiðenda myndarinnar sem er leikstýrt af Aku Louhimies

Myndin er sú vinsælasta í Finnlandi á árinu og aðsóknarmesta innlenda myndin í yfir aldarfjórðung. Sem stendur er hún í 14. sæti yfir vinsælustu myndir Finna.

Nordic Film and TV News greinir frá og ræðir m.a. við Timo Räisänen, yfirmann dreifingardeildar SF Studios, sem dreifir myndinni. Hann segir uppfærðar áætlanir gera ráð fyrir að myndin nái einni milljón gesta. Hún verði síðan sýnd á hinum Norðurlöndunum í byrjun næsta árs.

Til að setja þetta í íslenskt samhengi má benda á að aðsóknin nú samsvarar um 38 þúsund gestum á Íslandi. Nái hún milljón gestum samsvarar það um 62 þúsund gestum á Íslandi, sem er á pari við til dæmis Svartur á leik (sjá hér).

Ingvar Þórðarson, sem einnig kemur að framleiðslu annarrar vinsællar finnskrar myndar, Tom of Finland, bendir í spjalli við Klapptré á að finnsk stjórnvöld hafi í tilefni 100 ára fullveldisafmælis landsins á þessu ári hvatt til þess að gerðar yrðu bíómyndir um fólk eða byggt á skáldsögum sem hafa haft mótandi áhrif á lýðveldið. Sérstakt framlag hafi komið til vegna þessa og báðar myndirnar hafa fallið undir þetta. Hann spyr jafnframt hversvegna íslensk stjórnvöld hafi ekki gert slíkt hið sama í ljósi hundrað ára fullveldisafmælis Íslands á næsta ári.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR