Morgunblaðið um „Rökkur“: Úti bíður andlit á glugga

Sigurður Þór Óskarsson og Björn Stefánsson í Rökkri.

Brynja Hjálmsdóttir skrifar um Rökkur Erlings Óttars Thoroddsen í Morgunblaðið og segir hana hlaðna afar ólíkum hrollvekjuþáttum sem framkalli undantekningarlaust spennu en fléttan og niðurstaða hennar sé heldur laus í sér. Hún gefur myndinni tvær og hálfa stjörnu.

Brynja segir meðal annars í umsögn:

Rökkur er lítil framleiðsla, það koma ekki margir að gerð myndarinnar og hún er gerð af takmörkuðum efnum. Miðað við það verður að segjast að hér hefur tekist vel til og myndin hlýtur að teljast til betur heppnaðra íslenskra indímynda. Þá getur maður ekki annað en dáðst að dugnaði Erlings leikstjóra við að koma myndinni á kortið en hún hefur verið sýnd á fjölda kvikmyndahátíða og fengið mikla umfjöllun.

Það sem heldur myndinni uppi er frammistaða aðalleikaranna. Björn og Sigurður Þór túlka Gunnar og Einar af fagmennsku og tilfinninganæmi sem skilar sér í margslungnum og áhugaverðum persónum. Sambandið á milli þeirra er vel byggt. Gunnar er eldri og upplifir sig sem verndara Einars, hann hefur áhyggjur af honum og ætlast til þess að hann segi sér allt af létta um tilfinningar sínar, bernsku og einkalíf. En það kemur á daginn að það er e.t.v. Gunnar sem þarf að taka til í sínu einkalífi og opna sig þar sem hann hefur tilhneigingu til að grafa vandamál sín frekar en horfast í augu við þau. Leikararnir tveir ná sterkri kemestríu sín á milli og þess vegna voru samtalsatriði þeirra inni í sumarbústaðnum mínir eftirlætiskaflar í myndinni, þrátt fyrir að samtölin séu misvel skrifuð og eigi mismikið erindi inn í myndina.

Ég hef áður tekið fram í þessum miðli að það hafi lengi verið sár vöntun á hrollvekjum í íslensku kvikmyndasamhengi. Nú virðist vera hrollvekjuvakning og ég fagna því heilshugar en Íslendingar eru samt sem áður að stíga sín fyrstu skref í greininni. Að sama skapi er Erlingur að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerð og því ýmsir þættir sem á eftir að þróa og rækta.

Í Rökkri er unnið með sígild hryllingsmyndaminni; ekki er ljóst hvort það sem ásækir piltana er af þessum heimi, bregðuatriði og draugalegar barnsraddir eru á sínum stað og ekki vantar skerandi og spennuaukandi strengjaútsetningar. Þetta hafði tilætluð áhrif, áhorfendur æptu upp yfir sig af geðshræringu og ung kona lýsti því yfir stundarhátt að hún ætlaði aldrei framar að fara í sumarbústað.

Hrollvekjan er um margt íhaldssöm kvikmyndagrein og maður býst ekki endilega við ærandi frumleika þegar maður sækir slíkar myndir, öllu heldur sækir maður í þær því maður veit hvað stendur til. Að því sögðu þá er Rökkur afar hlaðin ólíkum hrollvekjuþáttum, sem framkalla undantekningarlaust spennu en þjóna söguþræðinum ekki og afvegaleiða hann jafnvel. Fjölmörg atriði og möguleikar eru kynnt til sögunnar sem eru aldrei fyllilega til lykta leidd. Þess vegna er fléttan og niðurstaða hennar heldur laus í sér. Hugsanlega hefðu skarpari klipping og niðurskurður hjálpað til í þeim efnum, sum atriði eru endurtekningasöm og myndin er talsvert lengri en hún þyrfti að vera.

Kvikmyndatakan er prýðileg, bæði inni- og útitökur eru vel úr garði gerðar og sviðsmyndin fær að njóta sín. Hljóðmyndin er sömuleiðis í stakasta lagi. Það má þó koma auga á nokkra tæknilega vankanta, til dæmis eru myndgæðin áberandi minni í sumum senum sem gerast í myrkri. Maður er vissulega tilbúnari til að fyrirgefa slíkt þegar um sjálfstæða framleiðslu er að ræða en þetta er engu að síður nokkuð meinlegt. Þá er litaleiðréttingin fremur ýkt, stundum minnir áferð myndarinnar á instagram-filter. Þessi fagurfræði höfðar takmarkað til mín en hún er í tísku um þessar mundir og virðist njóta mikillar hylli.

Það liggur ekki ljóst fyrir hvað það er sem ásækir Einar og Gunnar; hvort það er undarlegur bóndi í nágrenninu sem hefur orð á sér fyrir að vera „fjölþreifinn“ eða jafnvel eitthvað úr handanheimum. Jafnvel má gera sér í hugarlund að uppsprettan sé óuppgerð áföll sem þeir hafa gengið í gegnum. Þessi margræðni skapar spennuþrungið andrúmsloft en engu að síður hefði þurft að þétta myndina svo úr yrði hnitmiðaðri frásögn.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR