Framleiðslufyrirtækið Republik stofnaði dagskrárdeild á síðasta ári og hefur þegar sent frá sér tvær heimildamyndir, Fjallabræður í Abbey Road sem sýnd var á RÚV s.l. vetur og Spólað yfir hafið sem sýnd var í Bíó Paradís og verður á dagskrá RÚV í haust. Mörg önnur verkefni eru í vinnslu, þar á meðal heimildamynd um Björgvin Halldórsson og önnur um Retro Stefson.
Bó segir GÓ!
Í nýrri heimildamynd um Björgvin Halldórsson fær fólk að kynnast persónunni á bak við nafnið í tveimur þáttum. Umsjón með verkefninu hafa reynsluboltarnir Jón Þór Hannesson og Ágúst Guðmundsson. Myndin er vel á veg kominn og verður sýnd á RÚV áður en langt um líður.
Jólasveinar einn og átta
Andri Freyr Viðarsson hefur frá síðustu jólum unnið að sjónvarpsþáttum fyrir börn á öllum aldri, sem sýndir verða í sjónvarpi í desember. Í þáttunum fáum við að skyggnast á bak við tjöldin hjá aðstoðarmönnum jólasveinanna. Aðstoðarmenn jólasveinanna er fólk sem á það sameiginlegt að vera með jólahjartað á réttum stað. Hvort sem fólkið aðstoðar jólasveininn með að leika hann þegar hann kemst ekki, eða að kenna fólki að föndra. Halda jólaböll eða að bera út jólakort. Blóðið í þessum jólabörnum er jólarautt. Þættirnir verða 13 talsins.
Retro Stefson kveður
Síðastliðið vor hélt hljómsveitin Retro Stefson sína síðustu tónleika. Republik var falið að gera heimildamynd um viðburðinn og kvikmyndaði allt frá aðdraganda tónleikanna til síðasta lags. Myndin verður sýnd á RÚV í desember næst komandi.
Grúskarinn
Sigurður Pálmason er nafn sem margir kannast við. Flestir sem muna efir honum sem litla dreng Pálma Gunnarssonar sem söng jólalög svo fallega fyrir nokkrum áratugum. Það sem færri vita er að Sigurður er grúskari mikill og býr yfir mikilli vitneskju um sögu hluta og staða á Íslandi. Í 8 þáttum sem Republik framleiðir fyrir RÚV, sláumst við í för með Sigga sem fer um víðan völl og kynnir fyrir fólki sögur um áhugaverða staði og minjar um allt land. Þættirnir Grúskarinn verða á dagskrá RÚV í byrjun árs 2019.
Spólað yfir hafið tilnefnd
Heimildamyndin Spólað yfir hafið sem frumsýnd var í vetur í Bíó Paradís, tekur þátt í London Motor Film Festival í seinnihluta september. Sú hátíð er sérsniðin að myndum sem fjalla á einhvern hátt um ökutæki af öllum stærðum og gerðum. Myndin verður sýnd í tveimur hlutum í byrjun október á RÚV.