Skjaldborg I: Veröld sem var

Þetta er fyrsti hlutinn af þremur í Skjaldborgar-uppgjöri Ásgeirs H. Ingólfssonar þetta árið – hinir pistlarnir birtast á næstu dögum.

Kvikmyndahátíðin Skjaldborg er alltaf heimur út af fyrir sig – og sá heimur byrjar einhvers staðar á leiðinni, þar sem ískyggilega hlykkjóttir malarvegir æskunnar birtast skyndilega upp úr minnisþokunni og maður fær skyndilegt flashback úr skottinu á Lödunni sem foreldrarnir rúntuðu hringveg ársins 1985 á, á meðan átta ára sonur þeirra las Spider-Man blöð í skottinu. En núna er maður orðinn óvanur þessari möl og veltir því fyrir sér hvort maður eigi nokkuð eftir að fara að lifa þetta af. Svo mætir maður á staðinn og stimplar sig að mestu leyti út af internetinu og inní dimma bíósali og bjartar sumarnætur.

En í þetta skiptið var heimurinn jafnvel enn meira framandi inní bíósalnum sjálfum, þar sem átti sér stað einhvers konar uppgjör við veröld sem var. Uppgjör eða kveðjubréf, það var mismunandi eftir myndum. Við flæktumst á bensínstöð á hjara veraldar, hittum fyrir látið fólk, skoðuðum gamla þjóðbúninga og rifjuðum upp íslenska sem og ameríska og tékkneska fortíð. Allt gerðist þetta á meðan massatúrisminn er að gera Reykjavíkina sem við þekktum fyrir fáeinum árum óþekkjanlega og jafnvel ólíklegustu krummaskuð eru stundum stútfull af ferðamönnum. Ég veit ekki hvort þetta nýja Ísland verður draumalandið eða martraðarlandið í framtíðinni – ég veit bara að ég er þakklátur fyrir að heimildamyndagerðamenn okkar eru að takast á við þá spurningu, jafnvel þótt þeir viti ekkert endilega svörin, ekkert frekar en við hin.

Sveinn á Múla.

En afsakið útútdúrana, við vorum á leiðinni á bensínstöð. Til að heilsa upp á hann Svein gamla. Sveinn á Múla var ein af betri myndum hátíðarinnar (ekki samt sú besta, ég segi ykkur frá henni í næsta pistli). Sveinn þessi rekur eina afskektustu bensínstöð veraldar – en olíufyrirtækin í Reykjavík vilja ekki selja honum meira bensín, eða svo ég gefi nú upp undirtitil myndarinnar líka: „Íslendingurinn sem varð bensínlaus.“

Þetta hljómar kannski ekki eins og mikill harmleikur – bensínstöðvar þekkjum við flest sem staði sem bera feigðina í sér, þar sem fólk hleypur inn og kaupir olíu á bílana sína og kannski samloku og hleypur síðan út úr einhverju mannfjandsamlegu N1 helvíti. En líf getur þrifist alls staðar á þessari jörð og þegar mannvinur eins og Sveinn situr á bensínstöð á hjara veraldar verður bensínstöðin full af lífi, enda hans helsta áhugamál að spjalla við útlenska ferðalanga – og þá skiptir engu máli þótt hann tali ekki nema örfá orð í ensku og þýsku. Vegna þess að Sveinn er veraldarvanur sveitamaður og kann tungumál handapats, bendinga, augnatillits og hláturs betur en flestir – þannig að hann og útlensku ferðamennirnir skilja hvern annan fullkomlega.

Maður er smá tíma að átta sig á myndinni – en hægt og rólega sér maður að hér er leikstýran Marine Ottogalli að skrásetja mannlíf sem þrífst við erfiðustu aðstæður – en mun ekki lifa þetta skeið kapítalismans af, hún náði að skrásetja þessa bensínstöð á heimsenda á síðustu stundu, rétt áður en hún hvarf í óminni tímans. Mér fannst myndin raunar nánast fullkomin sem slík þegar ég hélt hún væri að enda, bensíndælurnar voru rifnar burt af risavöxnum gröfum og það rigndi niður í svörðinn – þetta var frábært lokaskot, hið fullkomna lokaskot jafnvel. En svo hélt myndin áfram í korter í viðbót. Þar gerðist ýmislegt merkilegt á þessu korteri, en endirinn var kominn – þarna vantaði að einhver hvíslaði: „kill your darlings.“ Um þetta var samt deilt í heitum pottum hátíðarinnar – við börðumst öll fyrir okkar endalokum, vildum öll setja punkt á réttum stað – hvar sem sá staður kann að vera.

Ein manneskja skildi þó myndina öðrum betur – barnabarn Sveins var í áhorfendaskaranum og við sem erum vön director‘s commentary á DVD diskum fengum nú að prófa ancestor‘s commentary í bíósal, splunkunýja en þó ævaforna tækni þar sem barnsrödd kallaði reglulega „þetta er afi!“ eða „amma að hengja upp þvott!“ og við mundum að þetta var lífið sjálft og Sveinn er alvörumanneskja sem margir í salnum þekkja.

Notalegur draugagangur

Sveinn þessi er enn á lífi að því ég best veit – og það er því hægt að festa hann á filmu. En hvernig kvikmyndarðu hina látnu? Stundum er til myndefni – en stundum er ekkert til nema afkomendurnir. Ímyndaðu þér til dæmis son sem er að taka upp aldraða móður sína og spyrja hana út í látna mömmu mömmunar – og hægt og rólega verður móðirin aldraða aftur lítil stelpa fyrir augunum á okkur, lítil stelpa að rifja upp sterka og hugsjónaríka móður sína, hjúkrunarkonu sem hafnaði fálkaorðu fyrir að mæta í vinnuna, móður sem viljandi var í bakgrunninum fyrstu æviár einkadótturinnar svo barnið ætti örugglega eins mikinn tíma með dauðvona föður og mögulegt var, en varð svo í kjölfarið hennar besta vinkona, þegar stelpan hafði misst föðurinn og móðirin hafði glatað ástinni.

Þessi ímyndun er raunveruleiki myndarinnar Ég fer bráðum að koma, einfaldrar en merkilega göldróttar stúdentamyndar Örvars Hafþórssonar. Þetta er einföld mynd en flókin um leið, Örvar skynjar að dýptin í minningunum er næg til þess að hin látna móðir móðurinnar (og hans eigin amma) verður ljóslifandi og nógu sannfærandi til að móðir hans sjálfs, öldruð konan, verður barnung í huga áhorfanda – svo týnd er hún í eigin bernskuminningum.

Draugur hinna blindu, draugur litanna

Um miðja síðustu öld skolaði tunnu af tréspíra í land í Vestmanneyjum. Þeir sem drukku tréspírann annað hvort létust eða urðu blindir – en þeir sem urðu blindir fengu þó allir sýn á ný. Allir nema einn, hann Andrés fékk sjónina aldrei aftur og hefur lifað í myrkrinu í meira en hálfa öld. En hann eignaðist son, son sem hann aldi upp með blindri stjúpmóður. Andrés lýsir því fyrir okkur hvernig sjáandi sonur hans sat á háhest og togaði í eyrun á pabba sínum til þess að stýra blindum föðurnum um stræti Reykjavíkur.

Blindrahundur.

Seinna komumst við að því að þessi sonur, Birgir Andrésson, varð með merkari listamönnum þjóðarinnar þegar hann fullorðnaðist. Gamlir skólafélagar hans og vinir rekja fyrir okkur hvernig þetta óvenjulega uppeldi á blindraheimili skilaði sér í óvenjulegum einstakling, sem hafði ekki sömu hömlur og aðrir og sömuleiðis ekki sömu  hraðahindranir í hausnum – hann sá yfir hóla sem aðrir sáu ekki yfir – og endaði svo hér, látinn en viðfangsefni sigurmyndar hátíðarinnar. Blindrahundur heitir hún og er listilega vel gerð, rammarnir og uppbyggingin minna um margt meira á listaverkin sem Birgir skapaði frekar en hefðbundna bíómynd. Þá skapar það myndinni sérstöðu að sýna Birgi aldrei, hann er stundum til staðar í rödd, en þó oftast til staðar í orðum þeirra sem minnast hans.

En áður en lesendur örvænta yfir allri jákvæðninni í pistlinum til þessa þá verður það að játast að þessi gagnrýnandi var alls ekki sáttur við verðlaunin – af því þótt margt sé magnað í myndinni þá er hún meingölluð að öðru leyti.

Hún byrjar frábærlega – og það sem ég lýsti fyrir ykkur er að mestu í byrjuninni. En svo týnast þessir þræðir og maður fær lítið að vita hvaða áhrif þetta uppeldi og þessi tengsl við heim hinna blindu hafði á hann sem myndlistarmann. Þess í stað leysist myndin upp í erfidrykkju myndlistarmanns þar sem allir gestirnir eru listamenn sjálfir eða einhvers konar listfræðingar og ræða um Birgi eins og tónlistarskríbentar að rífast um nýju Blur-plötuna, talandi um SÚM-ara og lingóið hjálpar okkur ekki neitt, okkur sem var ekki boðið í erfidrykkjuna sjálfa. Kannski er myndin frábær ef maður er búinn að lesa íslenska listasögu seinni hluta tuttugustu aldar upp til agna – en án þess þá er hún sannarlega um margt góð og merkileg kvikmynd, en einfaldlega of köld til þess að ég geti elskað hana, af því hún hefði getað orðið svo heit ef hún hefði bara viljað það.

Skjól og skart.

Hvíta Íslandssagan og brjálaði prófessorinn

En spólum aðeins aftur í rauntíma – aftur til opnunarkvöldsins þegar Skjól og skart – handverk og saga íslensku búninganna var frumsýnd, opnunarmynd Skjaldborgar. Nafnið er ekki það þjálasta, enda kölluðum við flest hana bara þjóðbúningamyndina eftirá. Og við vorum líka flest sammála um að myndin væri afskaplega fræðandi og þar af leiðandi vel þess virði að sjá, en um leið full mikil áhersla á fræðin og kvikmyndalistin sjálf gleymdist stundum. Efnislega fannst mér sjálfum líka einn stór galli á henni – þótt aðrir hafi mögulega ekki tekið eftir því. Það fara nefnilega bara fáeinar sekúndur í að sýna fræga forsíðu The Reykjavík Grapevine þar sem gullfalleg blökkukona var klædd þjóðbúningnum góða. Þessi forsíða olli heilmiklu fjaðrafoki og sú saga hefur verið rakin að hluta til síðar meir, en það hefði mátt kafa djúpar í þá sögu og þessi mynd hefði verið fullkominn vettvangur til þess. Enda er hún best á þessum stuttu augnablikum sem nútíminn mætir fortíðinni á óvæntan hátt, eins og þegar skólakrakkar rappa í þjóðbúningum við lag Reykjavíkurdætra eða þegar næturdrottning úr Reykjavík notar upphlutinn við leðurbuxurnar. Þá verður sagan lifandi, þá verður sagan líka gott bíó. Ég tek þó sérstaklega fram að ég er ekki að saka kvikmyndagerðarmennina um rasisma eða þöggun, bara þann klaufaskap að missa af frábærri sögu sem átti heima í myndinni.

Þar sem þú hefur alltaf verið.

Kannski er ég að segja að það að horfa á myndina sé of mikið eins og að fara á safn – en það er líklega ekki rétt hjá mér, ef marka má myndina Þar sem þú hefur alltaf verið. Leikstjórinn Atli Sigurjónsson er í kvikmyndanámi í Austin í Texas-fylki og hefur þrætt ýmis skemmtileg og forvitnileg söfn í fylkinu – og þar getur sagan sannarlega verið sprelllifandi þegar vel tekst til. Myndin er afskaplega fallega tekin og fer á flug þegar sérlegur sérfræðingur um safnafræði mætir í viðtal. Það hljómar sannarlega ekki spennandi, en þessi prófessor er sérviskulegur og í litríkum og skemmtilegum jakkafötum, gæti leikið klikkaða prófessorinn í einhverri ofurhetjumyndinni. En þegar hann fer að tala um söfnin þá geislar hann af áhuga og sagnagleði og áhorfandinn heillast með og gleymir ranghugmyndum um söfn sem rykfallin leiðindi og fer að hugsa um þau sem spennandi gátt inn í dramatíska fortíð sem hann þyrstir að vita meira um.

Ég skal samt játa eitt: þótt ég sé forvitinn um íslenska og ameríska fortíð þá bý ég þessi misserin í Prag og get sökkt mér endalaust ofan í Pragverska fortíð, enda borg sem er stútfull af þverstæðukenndri og óútreiknanlegri sögu, fullri af mystík og dramatík, ástum og sorgum. Þess vegna var ég örugglega glaðasti maðurinn í salnum þegar ég horfði á nokkrar eldgamlar myndir eftir heiðursgesti hátíðarinnar, Vasulka-hjónin góðu. Hann er tékkneskur og hún íslensk – en myndirnar voru skólaverkefni úr FAMU, kvikmyndaskólanum sem Milos Forman, Emir Kusturica og Grímur Hákonarson gengu allir í, og þar sjáum við daglegt líf í Prag sjöunda áratugarins, á lestarstöðvum og lögreglustöðvum og fleiri stöðum sem eru allt öðruvísi núna en þá. En þótt Prag 2017 sé allt öðruvísi en Prag 1963 þá er fjarlægðin á milli mín og hans Woody Vasulka lítil. Hann var skýrður Bohuslav og hét það örugglega þegar hann var námsmaður í Prag. Ég náði að heilsa honum undir lok hátíðarinnar og hann sagði mér að hann hefði verið herbergisfélagi Þorgeirs Þorgeirssonar, fyrsta Íslendingsins í FAMU ef kvikmyndasagnfræðin svíkur mig ekki. Þá svaraði ég honum á móti að ég hefði einmitt hitt tékknesku konuna sem var með Vilborgu Dagbjartsdóttur í Prag þegar þau verðandi hjónin, Þorgeir og Vilborg, hittust í fyrsta sinn.

Svona er heimurinn nefnilega lítill, bæði í tíma og rúmi, bæði í Prag sem og á Patreksfirði. Hvergi er hann þó jafn stór og jafn lítill og í Skjaldborgarbíói – þar sem Prag, Texas og Ísland rúmast á hvítu tjaldi í einhverju fallegasta bíóhúsi landsins.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR