spot_img

Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp meðframleiðendur finnsku stríðsmyndarinnar „The Unknown Soldier“

Aku Louhimies leikstjóri við tökur á The Unknown Soldier. (Mynd: ©Tommi Hynynen)

Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson hjá Kisa eru meðframleiðendur finnsku stórmyndarinnar The Unknown Soldier (Tuntematon sotilas) sem einn kunnasti leikstjóri Finna, Aku Louhimies, gerir. Myndin, sem lýsir stríði Finnlands við Rússa í seinni heimsstyrjöldinni og er byggð á þekktri samnefndri skáldsögu, kemur út í haust. Stikla myndarinnar hefur verið opinberuð og má skoða hér.

Myndin gerist á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og sögusviðið er stríðið milli Finnlands og Sovétríkjanna 1941-1944. Þetta er fjölpersónusaga sem lýsir mörgum ólíkum einstaklingum innan tiltekinnar herdeildar, allt frá herkvaðningu til vopnahlés.

The Unknown Soldier er gerð í tilefni hátíðahalda Finna vegna 100 ára afmælis sjálfstæðis landsins. Kostnaður nemur um 850 milljónum króna, en finnski herinn lagði einnig til aðstöðu, tæki og tól til gerðar myndarinnar.

Skáldsaga Väinö Linna kom út 1954 og má nánar fræðast um hana hér. Þetta er í þriðja sinn sem Finnar gera mynd byggða á sögunni.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR