Óskar Þór Axelsson leikstjóri Ég man þig ræðir við DV um ferilinn, myndina og verkefnin framundan.
Hér er gripið niður í viðtalið sem Kristján Guðjónsson tekur:
Ófært í Hollywood
Eftir Svartur á leik ákvað hann að láta langþráðan draum rætast og flytjast í eitt ár með fjölskyldunni til Los Angeles, kynnast bransanum og kynna sig sjálfan. Þrátt fyrir að hafa skrifað undir nokkra samninga um leikstjórn mynda hefur ekkert verkefnið orðið að veruleika enn sem komið er – enda segir Óskar myndirnar þurfa að komast í gegnum mikið nálarauga til að verða að veruleika.
Heima fékk hann hins vegar tækifæri til að taka þátt í stærsta sjónvarpsverkefni sem framleitt hafði verið á Íslandi. Hann segir það vissulega hafa verið stærra verkefni og fagmannlegra en hann hafði áður kynnst en segir það þó vera hluta af þróun sem hafi átt sér stað í íslenskri kvikmyndagerð á undanförnum árum.
„Ég er búinn að starfa í kvikmyndagerð meira og minna frá árinu 1997. Á þessum tíma hefur svo rosalega mikið breyst. Það er ekki bara auðveldara að fjármagna verkefni heldur er öll fagmennskan hjá teymunum búin að taka stakkaskiptum sem og öll umgjörðin. Bara munurinn frá því að ég var að gera Svartur á leik og til dagsins í dag er svakalegur,“ segir Óskar.
„Maður fann líka svo sterkt fyrir því að allt í umgjörðinni í kringum Ófærð miðaðist að því að leikstjórinn gæti algjörlega einbeitt sér að því sem hann á að gera, sem er að skipuleggja senurnar og ná því besta út úr leikurunum. Í öllum stuttmyndunum og jafnvel Svartur á leik þurfti maður að gera mun fleiri hluti og allt var miklu þyngra.
Mér fannst líka mjög gaman að vinna með öðrum leikstjórum. Í raun og veru er þetta nefnilega frekar einmanalegt starf. Þú þarft að taka allar ákvarðanirnar einn og þarft svo að standa og falla með þeim. Ef það er eitthvað vesen þá berð þú ábyrgð á því. Mér fannst frábært og afslappaðra að fara inn í teymi þar sem maður deildi ábyrgðinni – þó að Baltasar hafi auðvitað verið aðalleikstjórinn.“
Óvenjuleg hrollvekja
Ég man þig er fyrsta skáldsaga Yrsu Sigurðardóttur sem er færð á hvíta tjaldið en í bókinni sem kom upphaflega út árið 2010 er tvinnað saman tveimur sögum. Önnur sagan segir frá lækni á Ísafirði sem dregst inn í rannsókn á sjálfsmorði eldri konu en það virðist á einhvern dularfullan hátt tengjast hvarfi sonar hans fyrir nokkrum árum. Hin sagan segir frá ungu fólki sem fer að gera upp hús á Hesteyri um miðjan vetur en fer fljótt að gruna að það séu eitt ein í eyðiþorpinu.
„Ég las bókina mjög hratt þegar ég fékk hana senda og varð mjög spenntur en ég var samt ekki eins sannfærður og með Svartur á leik, því þótt ég hafi gaman af hryllingsmyndum eru það ekki uppáhaldsmyndirnar mínar. Það sem mér fannst hins vegar svo áhugavert var að bókin var algjörlega tvískipt, tvær sögur með tvö ólík form. Þetta er eitthvað sem hentar kvikmyndaforminu almennt frekar illa en mér fannst svo mikil áskorun fólgin í því að láta þetta ganga upp. Sagan heillaði mig auðvitað líka og svo fannst mér spennandi að þetta yrði fyrsta myndin byggð á bók eftir Yrsu – það gæti líka hjálpað til við fjármögnunina,“ segir Óskar.
„Þegar ég var í Hollywood var oft verið að bjóða mér hryllingsmyndir en handritin fannst mér bara yfirleitt svo léleg, klisjukennd og óspennandi – maður vill ekki festast í að gera svoleiðis myndir svo ég hafði varann á. En þessi mynd fannst mér svo óvenjuleg. Önnur sagan er krimmi en hin er „horror“ og svo er heilmikið drama þarna. Það er þessi blanda sem er svo heillandi. En svo er þetta líka draugasaga sem við höfum mikla hefð fyrir á Íslandi, svo mér fannst það spennandi. Það er bara svo mikið mál að gera svona mynd að maður verður að vera með hjartað í því.“
Listin að hræða áhorfendur
Það hlýtur að vera mikil kúnst að skapa ótta í bíógestum sem er nauðsynlegur í svona tryllum, hvernig fannst þér það ganga?
„Fólk er náttúrulega ólíkt, sumir verða auðveldlega hræddir og aðrir alls ekki. Þannig að það er mjög snúið að gera þetta vel. Í grínatriði er nokkuð augljóst að sjá hvort hlutir séu fyndnir, í kraftmikilli ofbeldissenu er augljóst hvort áhættuatriðið hafi tekist vel eða ekki, en það sem maður heldur að sé góður hryllingur getur auðveldlega orðið hallærislegt. Auðvitað verður maður sjálfur ekki hræddur á settinu en maður verður að treysta því að atriðið sé gott ef maður fær örlitla tilfinningu fyrir því að það sé „creepy“ þegar maður er að skjóta það, ef hárin rísa örlítið. Yfirleitt reyndi ég svo að eiga nokkra ólíka möguleika varðandi hvert atriði, til dæmis hversu mikið sést í Bernódus þegar hann birtist í læknum, hvert hann horfir og svo framvegis. Það gefur manni fleiri möguleika í klippiherberginu. En þess vegna var svo frábært að sjá fullan sal af fólki horfa á myndina – að sjá fólk grípa í höndina á næstu manneskju í spennandi atriði.“
Það hlýtur svo að hafa verið ákveðið umhugsunaratriði hvort það ætti að sýna ógnvaldinn eins og þið gerið undir lok myndarinnar. Það er auðvitað smekksatriði hvort það sé gott en ég held að það geri að verkum að fólk fari léttara út – hryllingurinn er ekki lengur ósýnilegur heldur þekkt stærð og þar með auðveldara að takast á við hann.
„Já, ég held að mjög harðir horror-aðdáendur séu ekki sáttir við þetta. En endirinn styður við dramað í sögunni. En þótt það sé lokun þá er þetta líka skuggalegur endir að vissu leyti. En ég er ánægður að heyra að þér finnist þetta svolítið „happy-ending“.“
Já, ég get ímyndað mér að þetta geri myndina fýsilegri fyrir almenna bíógesti sem ekki eru mikið fyrir hrylling.
„Já, þessi mynd er gerð fyrir almenning. Ég vissi það alveg frá upphafi og ýmsar ákvarðanir í ferlinu voru teknar með það í huga. Ég vil að hún höfði til ungs fólks en líka til ömmu þeirra og afa. Ég vil að þetta geti virkað sem inngangur fyrir fólk inn í þessa tegund bíómynda og mér heyrist það raunar vera að gerast – hópar af saumaklúbbum eru að mæta saman á myndina en líka unga fólkið.“
Í tölvupóstsamskiptum við hulduhöfund
Nýjasta verkefni Óskars er leikstjórn sex þátta raðar um lögfræðinginn Stellu Blómkvist með Heiðu Rún Sigurðardóttur í titilhlutverkinu. Þættirnir sem koma allir í einu inn á Sjónvarp Símans í nóvember eru byggðir á vinsælum – en ekki jafn virtum – glæpasögum hulduhöfundarins Stellu Blómkvist. Bókmenntafræðingurinn Óskar Þór er sem sagt enn einu sinni að laga íslenska spennusögu að kvikmyndaforminu.
„Ég hef alltaf pælt mjög mikið í aðlögunum og eiginlega sérhæft mig í því, bæði í náminu og eftir það. Ég skrifaði meira segja BA-ritgerðina um aðlögun leikrita að bíómyndum. Margar af uppáhaldsmyndum mínum er aðlaganir. Mér finnst líka glóra í þessu því stóri stopparinn í kvikmyndagerð er alltaf fjármagnið, og það getur verið auðveldara við að eiga þegar þú ert með bók sem fólk kannast kannski við. En svo ertu líka með þennan brunn til að sækja í aftur og aftur, ef þú sem leikstjóri eða handritshöfundur ert fastur ferð þú aftur í upphaflega verkið og sækir þar eitthvað nýtt.“
En hvað með Stellu Blómkvist, hefur þú verið í einhverju sambandi við þennan hulduhöfund persónulega – og veistu hver er á bak við nafnið?
„Ég tók þá ákvörðun strax að ég vildi ekki vita hver hún væri. En ég hef fengið tölvupóst frá viðkomandi. Hún las yfir handritið og kom með smá hugmyndir, það var mjög gaman,“ segir Óskar og hlær.
Sjá nánar hér: Tók kvikmyndagerð fram yfir lögfræðina – DV