Morgunblaðið um „Ég man þig“: Myrkraverk á Vestfjörðum

Brynja Hjálmsdóttir gagnrýnandi Morgunblaðsins segir Ég man þig Óskars Þórs Axelssonar fínasta spennutrylli og gefur henni fjórar stjörnur.

Umsögn Brynju er svohljóðandi:

Þegar maður á börn eins og ég þá getur maður hreinlega ekki lesið svona bækur!“ Þetta heyrði ég útundan mér í kaffisölu Árnagarðs ekki alls fyrir löngu. Bókin sem mælandi átti við var Ég man þig.

Það hefur líkast til ekki farið fram hjá neinum, sem hefur á annað borð rekist á kynningarefni fyrir Ég man þig, að myndin byggist á samnefndri bók glæpasagnadrottningarinnar Yrsu Sigurðardóttur. Yrsa, annar turnanna í því tveggja turna tali sem íslensk spennusagnaritun er, hefur sent frá sér fjölda bóka og af þeim er Ég man þig líklega sú ástsælasta en hún hefur notið mikilla vinsælda jafnt hérlendis sem erlendis. Hún er í senn glæpasaga og draugasaga, hið yfirnáttúrulega fer á kreik og stemningin er einkar ískyggileg – svo mjög að sumir lesendur, eins og sá í kaffisölunni, hreinlega veigra sér við því að lesa hana.

Leikstjóri kvikmyndarinnar, Óskar Þór Axelsson, er þekktastur fyrir myndina Svartur á leik sem naut gríðarlegra vinsælda þegar hún kom út árið 2012. Hér hverfur hann frá heimi harðsvíraðra glæpamanna og snýr sér að handanheimum. Líkt og í bókinni fylgir myndin eftir tveimur söguþráðum og flakkar á milli þeirra.

Annar þráðurinn á sér stað á Hesteyri. Kærustuparið Garðar og Katrín og vinkona þeirra Líf, hyggjast gera upp handónýtt hús í þessum afskekkta eyðibæ og breyta því í gistiheimili. Þau eiga ærið verk fyrir höndum en eru full bjartsýni og framkvæmdagleði. Hesteyri er einungis aðgengileg sjóleiðis og þegar þau skilja við ferjumanninn sem flytur þau á áfangastað eru þau fullkomlega ein eftir í tómu plássinu. Það er niðadimmt, nístandi kalt og símasambandið nánast ekkert.

Ef þetta eru ekki kjöraðstæður fyrir draugagang þá veit ég ekki hvað! Þegar líður á dvölina taka uggvænleg hljóð að heyrast og svipum bregður fyrir á gluggum. Dularfull spor og munir, sem tilheyra einhverjum öðrum en þeim, taka að dúkka upp í húsinu og þau fer að gruna að þau séu ekki einsömul eftir allt saman. Katrín virðist næmust fyrir nærveru afturgangnanna og eftir því sem hún verður taugatrekktari eykst spennan innan hópsins og kemur á daginn að þremenningarnir eiga ýmis mál óuppgerð.

Hinn þráðurinn fylgir eftir rannsókn dularfulls máls hjá lögreglunni á Ísafirði. Gömul kona finnst látin í kirkjunni á Flateyri. Hún hefur brotið allt og bramlað inni í kirkjunni, skilið eftir sig órætt krot á veggjum hennar og loks svipt sig lífi. Lögreglukonan Dagný, sem stýrir rannsókn málsins, fær geðlækninn Frey til liðs við sig við rannsóknina.

Á yfirborðinu lætur Freyr eins og allt sé í sómanum og reynir að láta lítið bera á þeirri miklu sorg sem býr innra með honum eftir að einkasonur hans hvarf sporlaust þremur árum áður. Málið vindur heldur betur upp á sig og virðist á furðulegan hátt tengjast sextíu ára gömlu barnshvarfi. Það sem meira er þá virðast málið tengjast hvarfi sonar Freys. Eftir því sem líður á rannsóknina taka óhuggulegar sýnir að herja sífellt ákafar á Frey og ótti hans um að tapa geðheilsunni fer vaxandi.

Þræðirnir tveir veita ágætis mótvægi hvor við annan og er fléttað prýðilega saman. Valið er að fókusera á persónur Katrínar og Freys, sem er góð ákvörðun og þróun persóna þeirra er vel byggð. Dunda og Jóhannes eru bæði stórfín í þessum lykilhlutverkum og þá þykir mér Dunda sérstaklega ná að gæða sína persónu lífi.

Þrátt fyrir ágætis samfléttun sögusviðanna tveggja fannst mér eins og meiri alúð hefði verið lögð í sögu krakkanna á Hesteyri en glæparannsóknarinnar. Þegar fjallað var um rannsókn málsins var stundum stiklað fullmikið á stóru. Vísbendingar og lykilupplýsingar, sem reyndust nauðsynlegar til að upplýsa málið, hrönnuðust upp á slíkum ógnarhraða að það varð á köflum ósannfærandi. Í mörgum tilfellum hefði í það minnsta mátt hafa mýkri aðdraganda að þeim. Framvindan á Hesteyri þótti mér ef til vill betur heppnuð þar sem þar gáfust ríkari tækifæri til þess að gera almennileg hryllingsatriði.

Aðstandendur myndarinnar mega eiga það að þeim tekst að framkalla virkilega draugalega stemningu. Ógnandi tónlist, expressjónískri lýsingu og annarlegum myndavélarvinklum er beitt til að skapa voveiflegt andrúmsloft og hryllingsatriðin mörg hver vel lukkuð. Ég kipptist í það minnsta margoft við í sætinu og á einum stað gólaði samferðamaður minn upp yfir sig af geðshræringu.

Tæknileg hlið myndarinnar er fín en ekki óaðfinnanleg. Kvikmyndataka og klippingar voru í stakasta lagi en hljóðvinnsla var sumstaðar óvönduð, endrum og sinnum var erfitt að greina orðaskil og bakgrunnshljóð of há og áberandi. Sérstakt hrós fá þeir sem önnuðust leikgervi og förðun sem er fagmannlega unnið og afturgöngur jafnt sem blóði drifin lík nokkuð sannfærandi. Einnig eiga leikmyndahönnuðir hrós skilið, því sviðsmyndirnar eru sérlega flottar.

Það má sæta furðu hve fáar hryllingsmyndir hafa orðið til á þessari köldu, myrku og stórskornu eyju, hentugra sögusvið fyrir hrollvekju er vandfundið! Þá finnst vart auðveldari og ódýrari leið til að gera kraftmikla mynd (sem selur) en að gera hrollvekju. Sem sérlegur aðdáandi hryllingsmynda læt ég mig dreyma um að Ég man þig hrindi af stað hrollvekjubylgju í íslenskri kvikmyndagerð. Ekki myndi skemma fyrir ef þær, líkt og þessi mynd, skörtuðu konum í aðalhlutverkum en þar hefur verið vöntun á.

Vegna þess hve sjaldgæf hryllingsmyndagerð hefur verið hér á landi fyllir myndin upp í ákveðna eyðu, hvort sem það var áætlunin eða ekki, bók Yrsu er draugabók og afraksturinn því að sjálfsögðu draugamynd og það hefur auðvitað lengi verið vinsælt sport að gera myndir eftir bókum. Gæði þeirra hrollvekja sem hafa þó verið gerðar eru líka misjöfn. Góðar íslenskar hrollvekjur eru til að mynda Húsið og Tilbury, sjónvarpsmyndir sem hafa mjög sérstakan stíl og dansa á línunni að vera hryllilegar og hallærislegar – sem þarf alls ekki að vera slæmt þegar hrollvekjur eru annars vegar.

Ég man þig er þó ekki hrollvekja af því taginu, hún er nútímaleg og alvarleg. Það er freistandi að tengja hrollvekjuna sem kvikmyndagrein við Bandaríkin, þar sem þeim er dælt út í gríð og erg. Gjarnan eru þetta vinsældamyndir, ódýrar unglingamyndir ólíkar stórum Hollywood-myndum. Þessar myndir hafa vissan sjarma en eiga það til að vera formúlukenndar og sækja hrollvekjuaðdáendur sem þyrstir í eitthvað ferskt þá gjarnan í myndir annars staðar frá.

Ég man þig sækir greinilega í brunn evrópsku og alþjóðlegu hrollvekjunnar, frekar en þeirrar bandarísku. Myndir á borð við finnsku myndina Sauna og spænsku myndina El Orfanato koma upp í kollinn sem fyrirmyndir. Þá virðist Ég man þig sérstaklega sækja innblástur í þá síðarnefndu en þær eiga margt sameiginlegt, bæði hvað varðar efnistök og söguþráð.

Myndin er ólík bókinni sem hún byggist á, það er óhjákvæmilegt í yfirfærslu milli miðla. Ég hyggst því ekki fara út í „hvort var betra“ samanburð á mynd og bók. Það eina sem ég hef um það að segja er að þær styttingar og breytingar á aðstæðum, persónum og öðru sem verður að gera ef úr á að verða funksjónal kvikmyndahandrit eru greinilega vel ígrundaðar.

Allt í allt er Ég man þig fínasti spennutryllir. Glæparannsóknarþráðurinn er ekki gallalaus en myndin fer á flug í hryllingsköflunum. Spennufíklarnir meðal sýningargesta ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum en eins gott að viðkvæmari bíógestir setji sig í stellingar til að þreyja það sem bíður þeirra á Ég man þig. Þá gæti verið vísara að kíkja undir rúmið sitt áður en maður fer að sofa að áhorfi loknu, því margt býr í myrkrinu…

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR