Deadline skýrir frá því að handritshöfundar Bond myndanna til margra ára, Neal Purvis og Robert Wade, vinni nú að handriti væntanlegrar skáldsögu norska spennuhöfundarins Jo Nesbö, I Am Victor, fyrir Baltasar Kormák.
Deadline segir verkefnið stutt á veg komið og að Baltasar undirbúi nú hrakningamynd sína Adrift fyrir STX Films. Miðillinn segir ekki ljóst hvort I Am Victor verði næsta verkefni Baltasars og nefnir að hann sé einnig með kvikmyndina Vikingr í undirbúningi.
I Am Victor er spennumynd um sjálfselskan og samviskulausan skilnaðarlögfræðing sem er grunaður um fjölda morða sem hann framdi ekki og tilraunir hans til að sannna sakleysi sitt.
Fredrik Wikström Nicastro (Borg/McEnroe, Snabba Cash þríleikurinn) hefur leitt verkefnið og mun framleiða fyrir SF Studios ásamt með RVK Studios Baltasars.
Sjá nánar hér: Neal Purvis, Robert Wade Adapting I Am Victor For Baltasar Kormakur | Deadline