[Stikla] Sjónvarpsmyndin „Líf eftir dauðann“ sýnd í tveimur hlutum um páska á RÚV

Björn Jörundur í Líf eftir dauðann.

Þættirnir Líf eftir dauðann verða frumsýndir á RÚV um páskana, en þar leikur Björn Jörundur Friðbjörnsson miðaldra poppara sem á að keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision, en allt fer úr skorðum þegar móðir hans deyr. Leikstjóri er Vera Sölvadóttir og semur hún einnig handrit ásamt Lindu Vilhjálmsdóttur. Stikla verksins hefur verið opinberuð.

Í frétt á vef RÚV er verkinu svo lýst:

Það fer allt úr skorðum í litlum bæ úti á landi þegar fyrirmæli koma af æðstu stöðum úr borginni um að flýta jarðarför eldri konu sem dó daginn áður og verið er að kryfja. Sonur hennar, miðaldra poppari, er á leiðinni til Lettlands til að keppa í Eurovision fyrir Íslands hönd þegar móðir hans deyr skyndilega. Hann er ógiftur og barnlaus, einkasonur móður sinnar og tæpur á taugum eftir áfengismeðferð. Hann verður miður sín af sorg og vill hætta við keppnina til að jarða móður sína. Þá brestur á hið þekkta íslenska „reddum því syndróm“  – og hringt er í æðstu menn þjóðfélagsins til að bjarga málum.

Það er hins vegar fólkið í litla bænum sem situr í súpunni og myndin er um það hvernig þau reyna sitt besta til, en beita samt ýmsum vafasömum ráðum, til að redda málunum þegar þessi skyndi jarðarför setur þéttskipaða dagskrá þeirra í lífsgæðakapphlaupinu í uppnám. Tilfinningin sem situr eftir í sögulok er að í neyslusamfélagi nútímans sé hvorki tími né pláss fyrir dauðann.

Gert hefur verið tónlistarmyndband við lagið „You Need To Know“, sem er Eurovision framlag Íslands í þáttunum og má einnig sjá það fyrir neðan.

Sjá nánar hér: Eurovision drama í íslenskum smábæ

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR