Eiðurinn eftir Baltasar Kormák var tekjuhæsta og mest sótta bíómynd ársins 2016. Aðsókn í kvikmyndahús eykst um 2,74% frá fyrra ári og er það annað árið í röð sem aðsókn eykst.
Aðsókn eykst milli ára
Á árinu 2016 fóru samtals 1.420.435 manns í íslensk kvikmyndahús og er það aukning um 2,74% frá árinu 2015. Árið 2015 var í fyrsta skipti í fimm ár sem aukning var í aðsókn á milli ára í íslensk kvikmyndahús og hefur hún því aukist í tvö ár í röð. Enn er þó langt í land að hún nái metárinu 2009 þegar tæp 1,7 milljón manns fór í kvikmyndahús.
Hver Íslendingur fór 4,27 sinnum í bíó á árinu og enn og aftur eru Íslendingar í hæstu hæðum þegar kemur að bíóaðsókn í heiminum. Heildaraðsókn er sérstaklega góð með tilliti til þess að Íslendingar sátu sem límdir fyrir framan sjónvarpsskjáinn í rúman mánuð um mitt síðasta sumar þegar Evrópukeppnin í knattspyrnu fór fram.
Eiðurinn vinsælasta myndin
Heildartekjur af kvikmyndasýningum í íslenskum kvikmyndahúsum var kr. 1.689.720.455 og er það hækkun upp á 8,9% í tekjum frá árinu 2015. Vinsælasta mynd ársins var Eiðurinn og er þetta í annað sinn á þremur árum sem íslensk mynd trónir á toppnum í íslenskum kvikmyndahúsum. Árið 2014 var það Vonarstræti. Íslendingar komu líka við sögu á vinsælustu mynd ársins 2015, Everest, og var það jafnframt í annað sinn sem sami leikstjóri (Baltasar Kormákur) átti vinsælustu mynd ársins tvö ár í röð, en áður var það James Cameron þegar Avatar var vinsælasta myndin 2009 og 2010. Baltasar hefur í raun fjórum sinnum leikstýrt vinsælustu mynd ársins (Eiðurinn, 2016, Everest 2015, Mýrin 2006 og Hafið 2002).
Innkoma
Tekjur af Eiðnum voru tæpar 64 milljónir og alls komu tæp 47 þúsund manns í kvikmyndahús til að sjá myndina. Næstvinsælust var svo kvikmyndin Suicide Squad með 57 milljónir í tekjur og nýjasta Star Wars myndin, Rogue One, sem var að hluta tekin upp hér á landi, raðaði sér í þriðja sætið með 56,7 milljónir í tekjur. Þess má einnig geta að síðustu tvær Star Wars myndirnar, The Force Awakens (frumsýnd 17. des. 2015) og Rogue One (frumsýnd 16. des. 2016), sem sjá má á listanum hér að neðan, eru þegar upp var staðið tekjuhæstu myndirnar sem frumsýndar voru á viðkomandi ári. Heildarmiðasala á The Force Awakens endaði í tæpum 113 milljónum króna, sem gerir hana að tekjuhæstu mynd sem frumsýnd var á árinu 2015 og annarri tekjuhæstu mynd allra tíma (eða frá því staðfestar mælingar hófust árið 1995). Rogue One er komin í tæpar 68 milljónir og er því strax orðin tekjuhæsta myndin sem frumsýnd var á árinu 2016.
179 kvikmyndir sýndar – þar af 15 íslenskar
Frumsýndar kvikmyndir á árinu voru samtals 179 sem er sami fjöldi og á árinu 2015. Frumsýndar íslenskar kvikmyndir og heimildarmyndir voru 15 á árinu, sem er tveimur myndum fleiri en á árinu 2015. Eins og áður segir var kvikmyndin Eiðurinn þar langvinsælust en kvikmyndin Grimmd kom þar á eftir með tæpar 17,5 milljónir í tekjur og þar á eftir Fyrir framan annað fólk með rúmar 14,6 milljónir í tekjur.
Vinsælasta heimildarmynd ársins var svo Jökullinn logar sem halaði inn rúmar 4,2 milljónir í kvikmyndahúsum í kringum Evrópukeppnina síðastliðið sumar. Samtals var hlutfall íslenskra kvikmynda og heimildarmynda í kvikmyndahúsum 6,6%, sem er aukning frá árinu 2015 þegar íslenskar myndir voru tæp 4,8% af markaðnum.
Hlutfall bandarískra kvikmynda í íslenskum kvikmyndahúsum var óvenjuhátt á árinu 2016 eða 90% í bæði tekjum og aðsókn. Á árunum 2014 og 2015 var hlutfall bandarískra kvikmynda í kringum 85%.
Lista yfir tuttugu vinsælustu kvikmyndirnar á árinu 2016 má sjá hér að neðan. Þess má geta að vinsældum mynda er ávallt raðað eftir tekjum en ekki aðsókn.
(Byggt á fréttatilkynningu frá FRÍSK)
Heiti | Dreifing | Tekjur | Aðsókn |
---|---|---|---|
Eiðurinn | Sena | 63,713,364 kr. | 46,786 |
Suicide Squad | Samfilm | 57,004,417 kr. | 41,237 |
Rogue One: A Star Wars Story* | Samfilm | 56,745,667 kr. | 42,017 |
Deadpool | Sena | 52,198,963 kr. | 42,227 |
Fantastic Beasts and Where to Find Them* | Samfilm | 45,607,465 kr. | 34,288 |
Bridget Joness baby | Myndform | 42,065,030 kr. | 34,601 |
Captain America: Civil War | Samfilm | 41,375,161 kr. | 30,588 |
Finding Dory | Samfilm | 40,937,213 kr. | 37,735 |
Zootropolis | Samfilm | 38,329,063 kr. | 38,188 |
Star Wars: The Force Awakens** | Samfilm | 34,715,682 kr. | 26,102 |
Batman v Superman: Dawn of Justice | Samfilm | 34,515,076 kr. | 26,115 |
Secret Life of Pets | Myndform | 34,495,706 kr. | 33,31 |
Doctor Strange | Samfilm | 32,577,915 kr. | 23,956 |
Trolls | Sena | 28,660,191 kr. | 29,723 |
The Jungle Book | Samfilm | 27,744,244 kr. | 23,092 |
Jason Bourne | Myndform | 25,257,569 kr. | 20,504 |
Storks | Samfilm | 24,833,265 kr. | 25,217 |
The Revenant | Sena | 24,012,305 kr. | 19,044 |
The Legend of Tarzan | Samfilm | 23,158,641 kr. | 17,531 |
Daddys Home | Samfilm | 22,877,936 kr. | 19,707 |