Í fjárlagafrumvarpinu 2017 sem lagt var fram í dag er gert ráð fyrir að framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands hækki um 77,8 m.kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs. Þar af hækka kvikmyndasjóðir um 70 milljónir (sem er í samræmi við nýgert samkomulag) og rekstrarhlutinn um 7,8 milljónir.
Þó vekur athygli að reitur fyrir heildarupphæð til kvikmyndasjóðshluta KMÍ fyrir 2017 er auður, en hækkunarinnar er þó getið í skýringum annarsstaðar í frumvarpinu.
Kvikmyndamiðstöð Íslands fékk 976,8 m.kr. á fjárlögum 2016 en gert er ráð fyrir að framlagið verði 1.054,6 m.kr. 2017. Hækkunin nemur um 8% milli ára og skiptist féð með eftirfarandi hætti:
- Kvikmyndasjóðir: 874,7 m.kr.
- Rekstur Kvikmyndamiðstöðvar: 139,9 m.kr.
- Endurskoðun laga og fleira (liður sem væntanlega verður að stærstum hluta notaður í miðastyrki og endurbætur á gömlum myndum ásamt endurskoðun laga): 40 m.kr.(Klapptré gerir þann fyrirvara að síðastnefndi liðurinn fannst ekki í frumvarpinu þrátt fyrir leit, en hann er í samkomulaginu).
Veruleg hækkun til Kvikmyndasafnsins
Þá vekur athygli að Kvikmyndasafnið fær mikla (og langþráða) hækkun, fer úr 65 m.kr. 2016 í 115,3 m.kr. 2017. Þetta er hækkun um 50,3 m.kr. eða næstum 78% milli ára.
Þetta kemur þó ekki alveg á óvart því Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hafði gefið í skyn í ræðu, á þingi kvikmyndasafna á Norðurlöndum sem fram fór hér á landi í haust, að hækkanir til safnsins væru í farvatninu og að bæta þyrfti við starfsmönnum og endurnýja tæknibúnað.
Gera má ráð fyrir að safnið ráðist þá meðal annars í kaup á vönduðum skanna til að yfirfæra og endurbæta gamlar kvikmyndir á stafrænan máta, en bæði tækjaskortur og mannekla hefur háð starfseminni um langa hríð.