„Já, það er alveg óhætt að segja að honum bróður mínum hafi legið mikið á hjarta. Þegar höfundarverk hans er skoðað í heild sést skýrt hvernig hann sameinaði aga og þjálfun manns sem lokið hafði doktorsprófi í sagnfræði og djúpa samúð með fólki sem verður illa úti,“ segir Kristrún Heimisdóttir.
„Myndinni er ætlað að gefa yfirsýn um verk hans og einskorðast við það. Ég vann hana hratt eins og ég lærði að víla ekki fyrir mér þegar ég var íþróttafréttamaður á Sjónvarpinu. Svo var ég líka svo ótrúlega lánsöm að Karl Lilliendahl, sem er í senn listamaður og frábær handverksmaður í kvikmyndagerð, gekk í lið með mér. Við slógum upp vinnubúðum í Osló, þar sem hann starfar hjá NRK, Karl, Edda Jónsdóttir kona hans aldavinkona mín og ég. Það samstarf var gott og árangursríkt eins og vonandi sést í myndinni.“
Erfiður sannleikur
Einar gerði alls 10 heimildarmyndir fyrir sjónvarp, eina bíómynd (María, 1997), Vaka-Helgafell gat út tvær skáldsögur eftir hann og að auki þýddi hann ljóð og smásögur margra höfuðskálda Þýskalands. Má þar meðal annars nefna hina frægu bók Inge Aicher-Scholl um andspyrnuhreyfinguna Hvítu rósina. Þá gerði Einar fjölda útvarpsþátta. Myndir hans í sjónvarpi nutu óvenjumikils áhorfs allt frá upphafinu í ágúst 1989 þegar fyrsta myndin Gyðingar á Íslandi fékk mesta áhorf allra dagskrárliða utan frétta.
„Einar var 22 ára námsmaður í Freiburg í Þýskalandi og fann konu sem hafði verið rekin frá Íslandi ásamt eiginmanni og tveimur ungum börnum. Þau voru gyðingar og flúðu ofsóknirnar. Bogi Ágústsson sýndi Einari það traust að hann gerði myndina og hún er enn gríðarlega sterk. Í efnistökum er vandlega gætt jafnvægis og sagan öll kemur fram. Áhorfendum var brugðið því þetta er erfiður sannleikur. Þessi mynd og aðrar eftir Einar eiga sérstaklega ríkt erindi nú.“
Egill Helgason minnist einnig Einars í pistli:
Einar Heimisson var einstaklega hæfileikaríkur og glæsilegur maður sem kom miklu í verk á stuttri ævi. Hann varð bráðkvaddur í Þýskalandi 1998, aðeins 31 árs að aldri. Einar var mörgum harmdauði, íslenskt menningarlíf missti mikið við fráfall hans og kannski íslensk stjórnmál líka.
Einar var afskaplega hugmyndaríkur maður og fundvís á merkilega hluti. Hann skrifaði doktorsritgerð við háskólann í Freiburg um það hvernig Íslendingar höndluðu flóttamannamál á árunum fyrir stríð. Hann lærði sagnfræði og bókmenntir, en leitaði stöðugt nýrra leiða til að finna hugðarefnum sínum og þekkingu farveg.
Hann skrifaði skáldsögu um þetta efni, Götuvísu gyðingsins, þegar hann var aðeins 22 ára. Þarna eru lýsingar á því hvernig þjóðfélagið snerist gegn flóttamönnum af gyðingaættum og hrakti þá burt.
Einar stundaði líka kvikmyndanám í Munchen og gerði heimildarmyndir fyrir sjónvarp. Tvær þeirra fjölluðu um innflytjendamálin sem honum voru hugleikin, en einnig er minnisstæð mynd sem nefndist Hvíti dauðinn og fjallaði um baráttuna gegn berklaveikinni.
Loks leikstýrði hann kvikmynd í fullri lengd sem hét María og skrifaði handritið að henni. Myndin segir frá ungri þýskri konu sem flýr framrás Rauða hersins í stríðslok en býðst svo að fara til Íslands og setjast að á afskekktum bæ.
Einar lék á fiðlu, stofnaði félag um klassíska tónlist þegar hann var í menntaskóla og fjallaði um tónlist í útvarpinu. Hann þýddi bækur og ljóð, unni sér ekki hvíldar. Það kann jafnvel að vera að hann hafi keyrt sig of hart áfram, gert of miklar kröfur til sjálfs sín.
Einar var jafnaðarmaður að hugsjón, og flest verk hans fjalla um mannúð eða skort á henni. Hann hefði getað lagt fyrir sig stjórnmál hefði hann viljað og komist í fremstu röð – slíkir voru hæfileikarnir og gáfurnar.
Einar Heimisson hefði orðið fimmtugur í dag. Hann fæddist 2. desember 1966. Minningarkvöld um hann verður í Seltjarnarneskirkju en þar verður forsýnd heimildarmynd um hann sem nefnist Undur einnar stundar. Höfundar hennar eru Kristrún, systir Einars, og Karl Lilliendahl.