Isold Film & TV Financing: Ný fjármögnunarleið fyrir kvikmyndagerð á Íslandi

Frá vinstri: Bergsveinn Jónsson, Thierry Potok og Þórómar Jónsson, hluti af aðstandendum Isold Film & TV Financing.
Frá vinstri: Bergsveinn Jónsson, Thierry Potok og Þórómar Jónsson, hluti af aðstandendum Isold Film & TV Financing.

Isold Film & TV Financing er nýr fjármögnunarsjóður fyrir kvikmyndir og sjónvarpsefni sem tekið hefur til starfa. Isold er ætlað að fjármagna endurgreiðslur sem og virðisaukaskattsgreiðslur sem falla til vegna kvikmyndagerðar hér á landi og stefnir einnig að því að koma með áhættufjárfestingu inní innlend verkefni til að klára fjármögnun eftir að styrkir og önnur fjármögnun liggur fyrir. Þá er og fyrirhugað að veita sérstöku fjármagni til kvikmyndaverkefna sem uppfylla skilyrði um umhverfisvernd og jöfn tækifæri milli kynja.

Sjóðurinn er kynntur á American Film Market sem nú stendur yfir og fjallaði Screendaily um sjóðinn á dögunum.

Endurgreiðslan og virðisaukaskattsgreiðslur fjármagnaðar

Í stuttu spjalli við Klapptré sagði Þórómar Jónsson leikstjóri, framleiðandi og stofnandi Isold Film & TV Financing, að stefnan væri að lána til bæði innlendra og erlendra aðila sem þannig gætu á framleiðslutímanum haft umleikis það fé sem síðar kæmi vegna endurgreiðslunnar sem og endurgreiðslu virðisaukaskatts, enda líði oft nokkur tími þar til þetta fé fæst greitt út og því til mikils hægðarauka fyrir framleiðendur að hafa aðgang að því strax.

Stefnan varðandi erlendu verkefnin verður einnig að veita svokölluð brúarlán fyrir allt að 20% af heildarkostnaði, hvort sem hann falli til innanlands eða utan og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þó verður þak á upphæð til hvers verkefnis um 4 milljónir dollara eða um 450 milljónir króna.

Áhættufjárfesting vegna lokafjármögnunar innlendra verkefna

Þórómar segir jafnframt að stefnt sé að því að 10% af heildarfjármagni sjóðsins verði varið í innlend kvikmynda- og sjónvarpsverkefni. Hugmyndin sé að koma inn með áhættufjárfestingu eftir að Kvikmyndasjóður, erlendir sjóðir og samframleiðsluaðilar séu þegar komnir inn. Veð verði tekin í endurgreiðslunni og öðrum tekjupóstum eftir aðstæðum hverju sinni. Isold muni meta möguleika hvers verkefnis fyrir sig með sjálfstæðum hætti.

Þórómar segir að Isold sé sérstaklega umhugað um að nota þann ávinning sem fáist af fjármögnun stórra erlendra verkefna til að koma með aukið fé inn í íslenska framleiðslu með því að bjóða uppá þjónustu varðandi lokafjármögnun sem oft hafi reynst erfiður hjalli að klífa. Hann áætlar að sjóðurinn verði að fullu fjármagnaður undir lok ársins.

Reynsluboltar koma að stjórn

Aðspurður um hverjir leggi Isold til fé svarar Þórómar því til að það séu að stærstum hluta erlendir fjárfestar en einnig íslenskir. Þeir verði nánar kynntir síðar.

Undirbúningur þessa verkefnis hefur staðið í tæp tvö ár og segir Þórómar að það hafi mætt miklum velvilja hjá stjórnvöldum hérlendis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og Film in Iceland. Verkefnið fái þó ekki krónu af opinberu fé og ekki eftir því sóst.

Miklir reynsluboltar koma að stjórn Isold. Thierry Potok, fyrrum framkvæmdastjóri Studio Babelsberg verður formaður stjórnar, en Þórómar segir ómetanlegt að fá slíkan mann inní verkefnið. Potok hefur mikla reynslu á þessu sviði og sé vel þekktur í kvikmyndaheiminum. Aðkoma hans hafi hjálpað mjög mikið til að skapa verkefninu trúverðugleika.

Þá verður Colin Brown, fyrrum aðalritstjóri Screen International, forseti félagsins og stefnumótunar- og fjölmiðlaráðgjafinn Francis DellaVecchia gegni stöðu framkvæmdastjóra. Mark Rabinowitz, framleiðandi og einn stofnenda IndieWire, verður innkaupastjóri.

Sérstök fjármögnun vegna „grænnar“ kvikmyndagerðar og jöfnunar starfstækifæra

Loks segir Þórómar einnig á döfinni að Isold sinni sérstakri fjármögnun vegna kvikmyndaverkefna sem uppfylla skilyrði um umhverfisvernd og jöfn tækifæri milli kynja. Byggt sé á hugmyndum verkefnisins Film4Climate sem Alþjóðabankinn og fleiri aðilar standi að. Markmiðið sé að draga úr umhverfislegum áhrifum vegna kvikmyndagerðar og auka meðvitund um loftslagsbreytingar gegnum kvikmyndir. Einnig sé lögð áhersla á jöfn starfstækifæri milli kynja og kynþátta.

Producers Guild of America hefur útbúið sérstaka vefsíðu með upplýsingum um „græna“ kvikmyndagerð. Fjölmargar kvikmyndir hafi þegar verið gerðar undir slíkum formerkjum, sem meðal annars felast í notkun rafbíla, endurvinnslu leikmynda, aðgerðum gegn matarsóun, bann við notkun plastefna og fleiri þátta.

Kvikmyndaverkefni sem uppfylli slík skilyrði munu því geta fengið ákveðið fjármagn til að mæta kostnaði við þessa þætti.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR