Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu Sagafilm segir mikinn áhuga fyrir innlendu leiknu efni hjá öllum innlendu sjónvarpsstöðvunum og að erlendir aðilar sýni íslenskri framleiðslu stöðugt meiri áhuga. Þrátt fyrir það situr Kvikmyndasjóður eftir og flöskuháls myndast í íslenskum kvikmyndaiðnaði. Stjórnvöld geta hjálpað til með því að auka framlög í íslenska kvikmyndagerð.
Þetta kemur fram á mbl.is og þar segir ennfremur:
„Fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til kvikmyndagerðar fær það 2-3 til baka. Þetta er ekki ölmusa eða styrkur, þetta er framlag sem þú færð til baka, góð fjárfesting,“ segir Þórhallur.
Hann segir fjármagnið alltaf helstu áskorunina í framleiðslubransanum. „En þá er alltaf betra að vera með góð verkefni því þá er fjármögnun auðveldari. Það er þess virði að eyða orku í að vinna þetta vel en stóra áskorunin er og verður alltaf fjármagn. Hér er verið að búa til sterkan kvikmyndageira og byggja upp sterka innviði sem geta tekist á við þessi stóru verkefni og gera þau vel á þeim mælikvarða sem krafist er erlendis.“
Þórhallur segir styrk frá Kvikmyndasjóði forsendu þess að fjármagn fáist úr erlendum sjóðum, og þar með forsendu fyrir því að hægt sé að framleiða efni á íslensku fyrir íslenska þjóð.
„Þannig laðar fjárfesting í kvikmyndasjóð til sín erlent fjármagn sem aftur styrkir efnahaginn sem og atvinnugreinina í heild sinni. Við viljum segja íslenskar sögur sem endurspegla umhverfi okkar, sögu, og samfélag,“ segir Þórhallur.
Áhugi erlendis fyrir Stellu Blómkvist
Flestir þekkja framleiðslufyrirtækið Sagafilm sem hefur sérhæft sig í framleiðslu sjónvarpsefnis og kvikmynda í næstum því fjörutíu ár. Það er gríðarlega mikið í gangi hjá fyrirtækinu og er það í takt við þá miklu grósku sem er nú í kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum hér á landi. Fyrirtækið framleiðir allar gerðir af sjónvarpsefni eins og raunveruleikaþættina The Voice Ísland og Biggest Loser, spennuþætti eins og Pressu og Rétt ásamt kvikmyndum og heimildarmyndum og fræðsluþáttum og auglýsingum. Eitt verkefni sem var að klárast í upptökum og Þórhallur nefnir er tveggja þátta serían Líf eftir dauðann sem verður frumsýnd á RÚV um páskana. Seríunni er leikstýrt af Veru Sölvadóttur sem skrifaði handritið með Lindu Vilhjálmsdóttur en Björn Jörundur Friðbjörnsson leikur aðalhlutverkið.
Þá er fyrirtækið einnig með sex þátta seríu í þróun sem mun heita Stella Blómkvist en stefnt er að því að byrja að skjóta hana í mars á næsta ári, eftir nokkurra ára þróun. „Stella Blómkvist hefur þegar vakið mikla athygli erlendis sem er ánægjulegt. Við bindum miklar vonir við handritið sem er hörkugott,“ segir Þórhallur en Óskar Þór Axelsson mun leikstýra Stellu Blómkvist. Þegar hefur verið samið við erlenda og innlenda samstarfsaðila varðandi fjármögnun en serían verður að öllum líkindum sýnd í Sjónvarpi Símans næsta haust.
Þetta eru aðeins tvö af þeim fjölmörgum verkefnum sem eru á döfinni hjá Sagafilm í leiknu efni og í samtali við mbl.is gat Þórhallur nefnt sjö verkefni með leiknu efni sem stefnt er á að komist í framleiðslu á næsta ári og byrjun 2018. Mörg þeirra hafa nú þegar fengið stuðning, bæði frá sjónvarpsstöðvum hér á landi en einnig erlendis frá.
Um er að ræða allskonar verkefni, m.a. kvikmynd fyrir alla fjölskylduna, pólitíska dramaseríu, dramaseríu sem gerist á íslensku sjúkrahúsi og heimildarmynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálið en bandaríska efnisveitan Netflix er stærsti einstaki fjármögnunaraðili hennar.
„Hvað eruð þið með meira?“
Þórhallur bendir á að Sagafilm og kvikmyndaiðnaðurinn hér á landi almennt hafi nú ótrúlega öflugan hóp af handritahöfundum. „Í kvikmyndagerð á Íslandi hefur náðst að byggja upp sterkari og sterkari hóp sem hefur vinnu við það að skrifa handrit fyrir kvikmyndir og sjónvarp,“ segir Þórhallur og bætir við að það hafi ekki verið þannig fyrir nokkrum árum. Við sjáum líka góða nýliðun þar sem við fáum nýja efnilega höfunda sem blandast reyndari teymum. Það er ákaflega mikilvægt að halda áfram að styrkja þróun og handritaskrif enn frekar þar sem sterk handrit eru undirstaðan af vönduðu verki. Þar höfum við styrkt okkur mikið síðastliðin ár og viljum halda áfram að styrkja okkur enn frekar.“
Segir Þórhallur að það sé vegna þess sem fyrirtækin fara út í verkefni með meira sjálfstraust. „Við vitum að þau eru góð og við finnum viðbrögðin hér heima og erlendis.“
Í þessu samhengi nefnir Þórhallur að spennuserían Réttur sem Sagafilm framleiddi á síðasta ári hafi nýlega verið seld til Channel 4 í Bretlandi og HBO í Evrópu í gegnum dreifingarfyrirtækið Red Arrow.
„Þegar sería er að fá þessi viðbrögð og við að fá viðbrögð frá þeim sem selja og kaupa efnið þá er spurt, „Hvað eruð þið með meira?“ og þá opnast á þetta samtal á milli okkar og erlendra aðila. Salan úti er gríðarlega mikilvæg og sérstaklega þegar fjármögnun á Íslandi er hlutfallslega að minnka,“ segir Þórhallur.
Mega ekki einbeita sér aðeins að erlendum markaði
Hann bætir þó að við að salan erlendis megi aldrei koma í staðinn fyrir söluna hér á landi. „Þetta má ekki verða þannig að við séum bara að fókusera á erlendan markað. Þá eru enn frekari kröfur um að erlendir aðilar eigi meira í verkefnunum, vinni kannski sjálfir endurvinnsluna, velji leikara eða láti hluta af verkefninu vera tekinn upp í þeirra heimalandi. Við viljum ekki þá þróun í krafti fjármagns. Ég get nefnt tvö nýleg atvik þar sem erlendir fjármögnunaraðilar óskuðu eftir veigamiklum breytingum á handriti gegn því að að setja meira fjármagn í þættina og þá að fara ekki gegnum íslenska kvikmyndasjóðinn. Við höfnuðum því einfaldlega af prinsipp ástæðum,“ segir Þórhallur og bætir við að með uppbyggingu iðnaðarins hér á landi sé auðveldara að framleiða betra efni og hefur áhuginn og fjármagnið erlendis frá vaxið með því.
„Við höfum ekki lengur áhyggjur af gæðunum. Við getum haldið áfram að segja sögurnar okkar og þegar við erum með forræði yfir skrifunum getum við sagt sögur af íslenskum veruleika. Þá eru enn meiri líkur á að dreifingaraðilar erlendis vilji sjá það líka. Við viljum ekki endilega framleiða einhverjar spennuseríur til þess að þóknast eingöngu fjárfestum erlendis frá. Fólki finnst áhugavert að sjá íslenskar sögur og því þarf að halda áfram. Þar getur Kvikmyndasjóður hjálpað en til þess þarf samstöðu og stuðning komandi ríkisstjórnar. Það er mikilvægt að pólitíkin skilji mikilvægi Kvikmyndasjóðs í heildarfjármögnun í íslenskri sjónvarps- og kvikmyndagerð.“
Hollywood hefur mikil áhrif á veltutölur í iðnaðinum
Veltan í íslenskri kvikmyndagerð hefur aldrei verið meiri og er það að miklu leyti vegna þeirra erlendu verkefna sem koma hingað til lands. Þórhallur segir það að mörgu leyti mjög jákvætt, bæði eykst við það fagþekking og fyrirtækin í atvinnugreininni verða sterkari. Slík þróun getur þó líka verið hættuleg. „Það má ekki verða þannig að við séum eingöngu að þjónusta erlendu fyrirtækin í stað þess að skrifa okkar eigin handrit. Við ættum að skapa jafnvægi þarna á milli.“
Sagafilm kom að tökum fyrir bandarísku Hollywood myndina Interstellar hér á landi árið 2013 en eftir það gerði fyrirtækið ákveðnar breytingar. „Við fórum að sækja meira á evrópskan markað, auglýsingar og sjónvarpsverkefni því það passar starfseminni hérna betur. Þegar svona Hollywood mynd kemur hingað ryður hún nánast öllu hér til hliðar. Okkur fannst við þurfa að gera þetta í jafnvægi við fyrirtækið í heild sinni og það hentar okkur betur.“
Sjá nánar hér: „Við vitum að þau eru góð“