Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð er búin að borga sig upp og gott betur. Allir áhættufjárfestar sem komu að gerð sjónvarpsþáttanna koma til með að fá fjárfestingu sína til baka. Ríkisútvarpið fær hins vegar framlag sitt ekki endurgreitt í beinhörðum peningum.
Þetta kemur fram á vef RÚV, þar sem rætt er við Baltasar Kormák framleiðanda verksins:
Ófærð er dýrasta þáttaröð sem framleidd hefur verið á Íslandi. Framleiðslukostnaðurinn nam um 1,1 milljarði króna.
„Það er búið að borga sig, og það verulega, upp. Þetta var mjög dýrt verkefni en það hefur gengið vonum framar þannig að við erum réttum megin við núllið,“ segir Baltasar Kormákur, framleiðandi og leikstjóri.
Baltasar segir að allir fjárfestar hafi ýmist nú þegar fengið framlag sitt endurgreitt eða fái það fljótlega.
„Það eru sumir samningar sem eru ekki greiddir ennþá, við erum að bíða eftir að fá greiðslur af sumum samningum, og það eru einhver útistandandi lán sem eru með veð í þeim samningum sem á eftir að ganga frá, en það er fyrirséð að allt það er á hreinu. Þannig að það er enginn í áhættu eins og staðan er,“ segir Baltasar.
Ríkisútvarpið tók þátt í þróun Ófærðar og framlagið nam milli 8 til 10 prósentum af heildarkostnaði. Það verður ekki endurgreitt.
„Rúv í þessu tilfelli kaupir sýningarrétt á seríunni, þeir fjármögnuðu hana ekki, þeir kaupa sýningarrétt á henni. Þá liggur þeirra framlag væntanlega í því að þeir selja auglýsingar eða eitthvað slíkt. Flestar sjónvarpsstöðvar fúnkera þannig. Þær kaupa sýningarrétt á seríunni, og fá síðan til baka annað hvort með áskriftum eða auglýsingum. Eða þetta eru ríkisstöðvar og hlutverk þeirra er að hluta til að sýna svona framleiðslu. Þannig að þeir eru ekki í áhættufjárfestingu á þessu, Ríkissjónvarpið,“ segir Baltasar.
Samningar RÚV eru með svipuðu sniði og samningar sjónvarpsstöðva á borð við ZDF í Þýskalandi, sem einnig tóku þátt í verkefninu.
Sjá nánar hér: Ófærð borgar sig upp og gott betur | RÚV