Morgunblaðið ræðir við Alejandro Jodorowsky leikstjóra, en mynd hans Endless Poetry verður sýnd á RIFF. Jodorowsky átti að vera heiðursgestur hátíðarinnar að þessu sinni en kemst ekki af heilsufarsástæðum.
Úr viðtalinu, sem Anna Margrét Björnsson, tekur:
Síleski leikstjórinn Alejandro Jodorowsky kláraði kvikmyndina Endless Poetry með því að hefja söfnun í gegnum hópfjármögnun á Indie Gogo. Tökur á kvikmyndinni, sem er önnur í seríu sjálfsævisögu, hans drógu úr honum þrek og hann sér sér ekki fært að koma til Íslands í þetta sinn sem heiðurgestur RIFF. Í hans stað kemur til landsins sonur hans, Brontis Jodorowsky, sem lék meðal annars í kvikmynd föður síns, El Topo, frá 1970 og mun svara spurningum áhorfenda og halda masterclass í tengslum við sýningar RIFF á Endless Poetry og Dance of Reality, sem er fyrsta myndin í sjálfsævisöguseríunni.
[…]Hr. Jodorowsky, kvikmyndin The Holy Mountain var sýnd í Reykjavík síðastliðinn vetur og það var slegist um miðana. Ég man eftir ungum manni sem hélt á miðanum sínum og starði á hann og sagði í sífellu: „Ég trúi þessu ekki, ég trúi þessu ekki.“ Hvers vegna heldur þú að þessi mynd hafi ennþá svona mikil áhrif á fólk í dag?
„Ég gerði þessa kvikmynd til að búa til list. Til að búa til eitthvað hreinskilið. Eitthvað sem skilur eitthvað eftir sig. Kvikmyndir sem eru gerðar í gróðatilgangi hafa stuttan líftíma, eftir svona tvo mánuði ertu búinn að gleyma um hvað myndin fjallaði. En þegar þú horfir á list, þá er listamaðurinn alltaf til staðar í henni, síbreytilegur. Verkið verður lifandi, eins og mannvera, þegar það er hreinskilið. Ég held að ungt fólk sé oft að leita að kvikmyndum sem gefa því eitthvað, eitthvað sem er ekki bara afþreying, heldur eitthvað skemmtilegt, sem vekur það. Ég geri aldrei leiðinlegar myndir. Ég geri sterkar, myndrænar myndir, list. Ég er ekki að búa til eitthvað til að græða á því, hvort sem það eru peningar, frægð eða aðdáun. Ég þurfti að bíða í þrjátíu ár eftir því að sýna Holy Mountain. Enginn vildi sýna þessa mynd og allir í kvikmyndaiðnaðinum hötuðu þessa mynd af því að hún aðlagaðist honum ekki. En unga fólkið sér þetta og skilur þetta.“
Býr ekki til kvikmyndir til að græða á þeim
Þú þurftir að hópfjármagna Endless Poetry. Hvernig gekk það, og er eitthvert vit í því að búa til svona kvikmyndir í dag?
„Ég segi nú að ég sé að gera þetta vegna þess að ég trúi því að líf mitt sé í listinni. Ég er listamaður, ég er ekki viðskiptamaður. Og þá er mér sama hvort ég græði peninga eða ekki, það eina sem skiptir mig máli er að geta búið til myndir og að finna peninga til þess að gera það. List er ekki viðskipti. Hópfjármögnunin gekk mjög vel. Ég var samt búinn að spara, ég hafði ekki gert kvikmyndir í tuttugu ár þar til ég gerði Dance of Reality en þá missti ég allt.“ Hann skellihlær. Og þú hlærð? „Já! Ég er að búa til kvikmyndir til að tapa peningum, ekki til að græða peninga.“ Og hann hlær ennþá meira. „Ég átti örlítinn pening til að byrja á næstu mynd. En ég hef ungan aðstoðarmann, Xavier Guerrero, sem sagði við mig að við gætum byrjað á henni, en aldrei klárað hana. Þá sagði ég honum að það væri fullt af bókum til í heiminum sem hefðu aldrei verið kláraðar, en þær hefðu samt notið mikilla vinsælda. Þannig að við byrjuðum, en svo á miðju ferlinu týndi ég tökuvélinni minni. Þá stakk hann upp á hópfjármögnun og það gekk mjög vel, við fengum í kringum eina milljón dollara og ég keypti nýja tökuvél. Ég kláraði myndina og varð að heilögum betlara!“
Hvers vegna ákvaðstu að gera sjálfsævisögulegar kvikmyndir?
„Þegar ég var að gera fyrstu myndirnar mínar, The Holy Mountain, El Topo og Santa Sangre, þá var ég ungur og þekkti ekki þjáningar lífsins. Þegar maður eldist þá missir maður hluti. Maður missir fjölskyldu og vini þegar þau deyja, maður missir líkama sinn, og þá uppgötvar maður sálina í sjálfum sér, og það sem býr í hjartanu. Þá færir maður fókusinn frá höfðinu til hjartans og vill tala um tilfinningarnar sem bærast í sálu manns og í hjartanu. Og hvaða tilfinningar talar maður um? Nú, sínar eigin. Og þá fer ég að segja söguna um líf mitt og hvernig það var, vegna þess að sérhvert líf er eins og skáldsaga. Hver einasta manneskja, meira að segja leiðinlegasta manneskja sem þú þekkir, hefur eitthvað að segja. Þess vegna gerði ég þetta og er að gera.“
Viðtalið í heild má lesa hér: „Ég geri aldrei leiðinlegar myndir“ – mbl.is