Börkur Sigþórsson leikstjóri og G. Magni Ágústsson tökumaður eru þessa dagana við tökur á þætti úr bresku spennuþáttaröðinni Endeavour, sem fjallar um hinn kunna lögreglumann Inspector Morse á yngri árum.
Börkur og Magni gera einn þátt af fjórum (þátt þrjú) í fjórðu syrpu seríunnar.
Börkur leikstýrði áður tveimur þáttum Ófærðar og gerði einnig stuttmyndina Skaði. Bæði þáttaröðin og stuttmyndin hlutu Edduna á sínum tíma.
Magni hefur lengi starfað á alþjóðlegum vettvangi en meðal annars kvikmyndað íslensku bíómyndirnar París norðursins, Brim og Strákarnir okkar. Hann myndaði einnig stuttmynd Barkar, Skaða. Magni hlaut Edduna fyrir kvikmyndatöku á Brim 2011. Þá hefur Magni einnig tekið upp þætti úr þáttaröðunum Dr. Who, The Job Lot og Wallander, svo dæmi séu nefnd.
Hér að neðan má sjá stiklu fyrir fyrstu syrpu þáttaraðarinnar.