Stjórn Félags kvikmyndagerðarmanna hefur sent frá sér tilkynningu vegna upphaflegrar umsagnar sinnar til Alþingis varðandi frumvarp um hækkun á endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar.
Hún hljóðar svo:
Í kjölfarið á umræðu sem spannst vegna fréttar sem unnin var upp úr umsögn sem Félag kvikmyndagerðarmanna sendi til Alþingis um þingskjal 1080 – 618 mál, frumvarp til laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi nr. 43/1999 á vef RÚV í gær vill stjórn FK koma því á framfæri að fyrir mistök fór vitlaust skjal til atvinnunefndar Alþingis síðastliðin föstudag. Inn í skjalinu var að finna athugasemd frá Árna Einarssyni líffræðingi um hans álit og átti ekkert erindi inn í umsögnina. Ekki var um að ræða álit Félags kvikmyndagerðarmanna og það var alls ekki ætlunin að verða þess valdandi að ákveðið fyrirtæki var bendlað við þennan hluta umsagnarinnar og harmar stjórnin að sú umræða hafi farið af stað að ósekju.
Skjalið var leiðrétt á vef alþingis í morgun og er hægt að finna á: http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/?ltg=145&mnr=618. Þá er rétt að taka það fram að stjórn Félags kvikmyndagerðarmanna styður frumvarpið og telur afar tímabært að hækka endurgreiðsluna úr 20% í 25% þar sem að það eykur samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavísu, sem er mjög mikilvægt fyrir kvikmyndaiðnaðinn í landinu.
FK harmar þann misskilning og óþægindi sem af hlaust af og biðst afsökunar á mistökunum.
Fyrir hönd stjórnar félags kvikmyndagerðarmanna
Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður