Jose Luis Guerin heiðursgestur Skjaldborgar í ár

Jose Luis Guerin.
Jose Luis Guerin.

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda – verður haldin í tíunda sinn á Patreksfirði um hvítasunnuhelgina næstkomandi, 13.-15. maí. Í ár verða frumsýndar 13 nýjar íslenskar heimildamyndir, auk nokkurra verka í vinnslu. Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er spænski kvikmyndagerðarmaðurinn Jose Luis Guerin.

Hátíðin mun að vanda fara fram í Skjaldborgarbíói en þar er um þessar mundir verið að koma upp splunkunýju DCP sýningarkerfi. Fastir liðir verða á sínum stað; skrúðganga, limbókeppni og afhending Einarsins, áhorfendaverðlauna Skjaldborgar, svo eitthvað sé nefnt.

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er spænski kvikmyndagerðarmaðurinn Jose Luis Guerin en óhætt er að segja að hann sé ein af kanónum heimildamyndagerðar samtímans. Guerin er sérstaklega þekktur fyrir að vinna á mörkum heimildarmynda og leikinna mynda, þannig að hann fléttar saman formunum og leikur sér með þau. Sýndar verða þrjár myndir eftir Guerin auk þess sem hann mun vera með masterclass í Skjaldborgarbíói sunnudaginn 15. maí.

Allar frekari upplýsingar er að finna á vef hátíðarinnar, en þar verður tilkynnt um dagskrána í lok vikunnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR