Þrenn verðlaun til „Þrasta“

Ingvar E. Sigurðsson og Atli Óskar Fjalarsson í Þröstum.
Ingvar E. Sigurðsson og Atli Óskar Fjalarsson í Þröstum.

Þrestir Rúnars Rúnarssonar hefur sópað að sér verðlaunum á alþjóðlegum hátíðum undanfarnar vikur. Um síðustu helgi hlaut hún aðalverðlaun Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Prag í Tékklandi, um þar síðustu helgi dómefndarverðlaunin í Mamers í Frakklandi og þar áður aðalverðlaun alþjóðlegu hátíðarinnar Spirit of Fire sem fram fór í borginni Khanty-Mansiysk í Síberíu, Rússlandi. Þrestir hefur nú unnið til alls 16 alþjóðegra verðlauna.

Rúnar segir þetta lyginni líkast:

Maður veit eiginlega ekki hvað maður á að segja lengur. Ég hef upp til hópa verið ótrúlega heppin með samstarfsfólk í gegnum tíðina og fólkið á bak við Þresti er engin undantekning. Listamenn og fagfólk með hæfileika og bjartsýni að vopni. Fólk sem getur skapað og flutt fjöll. Íslensk kvikmyndagerð hefur verið að ná ótrúlegum árangri á undanförnum árum og það er gaman að hafa möguleika á að taka þátt í þessu ævintýri.

Lilja Ósk Snorradóttir framleiðandi bætir við:

Þetta er búið að vera ótrúlegt ævintýri frá upphafi og skemmtilegt að fá að taka þátt í því. Þetta er ekki aðeins mikill heiður fyrir Rúnar og allt það hæfileikaríka fólk sem tók þátt í gerð myndarinnar heldur hjálpar þetta mikið til við dreifingu og framtíðarverkefni.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR