Á kafi í kvikmyndum, viðtal við Ásgrím Sverrisson

Ásgrímur Sverrisson er í viðtali við DV um Reykjavík, hugmyndirnar bakvið myndina og ferilinn.

Í viðtalinu, sem Kristján Guðjónsson tekur, kemur meðal annars fram eftirfarandi:

„Ég var alltaf ákveðinn í því að gera kvikmyndir, en fór ekki í kvikmyndaskóla fyrr en 26 ára. Ég fór í National Film and TV School sem er stærsti skólinn í Bretlandi. Það tók mjög langan tíma að komast inn í hann, en á meðan var ég meðal annars að vinna fyrir RÚV. Ég var líka að gera auglýsingar, tónlistarmyndbönd og annað slíkt.“

Og svo tuttugu árum seinna kemur fyrsta myndin?

„Já, en mér finnst ég raunar hafa verið að gera kvikmyndir alveg frá 1978. Ég hef gert tuttugu stuttmyndir, slatta fyrir sjónvarp, starfað í dagskrárgerð, og svo gerðum við saman fimm leikstjórar myndina Villiljós árið 2001. En þetta er eitt af því sem er svo fallegt við kvikmyndagerð og sjónvarp. Það snýst bara um einn hlut í grunninn: að ná skotinu. Maður tekur eitt skot í einu, svo er mismunandi hvað þau eru mörg í verkefninu og hversu flókin þau eru. En það er bara stigs- en ekki eðlismunur. Auðvitað eru verkefnin mjög misflókin en á þessu „mólekúlar-leveli“ er enginn eðlismunur.“

Greint fólk sem er að klúðra lífi sínu

Reykjavík er líklega flóknasta efnasambandið sem þú hefur smíðað með mólekúlum kvikmyndavélarinnar, af hverju langaði þig að gera þessa tileknu mynd?

„Hugmyndin var að gera borgarsögu um samband, um klárt og greint fólk sem er svolítið að klúðra lífi sínu. Maður sér þetta í eigin lífi, lífi vina og kunningja, og það kviknaði löngun til að takast á við þetta efni. Þetta liggur líka mjög nálægt því sem ég hef oft sjálfur gaman af í kvikmyndum, til dæmis mörgum Woody Allen-myndum og mörgum frönskum kvikmyndum, til dæmis eftir Francois Truffaut. Þetta er auðvitað bara eitt af því sem maður hefur gaman af, en ég fann sterka tengingu við efniviðinn,“ útskýrir Ásgrímur.

Hvað ertu búinn að liggja lengi á þessari hugmynd?

„Mun lengur en ég kæri mig um að nefna,“ segir Ásgrímur og hlær. „Ég var slatta af árum að dunda mér við að skrifa þetta við og við en það er eitt og hálft ár frá því að fórum í undirbúning – tökur voru síðsumars 2014. Hitt hefur örugglega tekið tíu ár eða meira. Maður tekur rispur við og við, svo fer maður í önnur verkefni, svo tekur tíma að koma þessu á koppinn. Að lokum er bara liðinn ógnarlangur tími.“

Á þessum ógnarlanga tíma hefur þú verið óþreytandi í því að fjalla um og gagnrýna kvikmyndir. Er ekkert stressandi fyrir þig að frumsýna myndir, er ekki marga sem klæjar í puttana að hefna sín?

„Maður verður bara að taka því með æðruleysi. Ég er búinn að gera myndina og hún er til sýnis. Fólki verður bara að finnast það sem það finnst. Ég sé ekkert rosalegan mun á þessu, maður er bara á kafi í kvikmyndum, hvort sem það er að fjalla um þær eða gera þær. Ég sé þetta bara sem tvær hliðar á sama peningi. Mér finnst ekkert skrýtið að ég sé að gera þetta.“

Ekki ævisöguleg

Aðalpersónan er kvikmyndaunnandi sem virðist líða betur í heimi kvikmyndanna en í raunheiminum. Er þetta einhvers konar sjálfsmynd?

„Þótt það sé kannski ákveðin vísun í mig er þetta skáldskapur – ekki ævisöguleg mynd. Ýmsir í kringum mig muni kannski kannast við ákveðna þætti þá er þetta ekki lykilsaga, ekki um einhverjar tilteknar persónur. En þetta er auðvitað mjög algengt þegar fólk skapar, maður byggir það á einhverju sem maður þekkir, hefur ástríðu fyrir eða sterkar tilfinningar gagnvart. Maður fer af stað til að gera einhverri tilfinningu skil. Svo lætur maður efnið lúta lögmálum skáldskaparins. Því lífið er náttúrlega ekki eins og skáldskapur. Hann er þrengri í forminu, svo þú þarft að sveigja hluti, búa til nýjar aðstæður og nýjar tengingar. En það er mikilvægt að halda í þann kjarna sem er ástæðan fyrir því að maður fór af stað.“

Viðtalið í heild má sjá hér: Fleiri hliðar á Reykjavík en grámi og ömurleiki – DV

Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar Reykjavík.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR