Ólafur Arnarson skrifar á vef Hringbrautar um Reykjavík Ásgríms Sverrissonar og segir hana „dásamlega“ og að honum takist „að gera það sama fyrir borgina og umhverfi hennar og meistara Allen tekst gjarnan í sínum borgarmyndum, fyrst New York og síðar evrópskum borgum á borð við London, París, Barcelona og Róm. Maður þekkir borgina en sér á henni alveg nýja hlið – skemmtilega og seiðandi hlið sem dregur mann til sín.“
Ólafur segir:
Það er alltaf tilhlökkunarefni að sjá nýja íslenska kvikmynd. Í vikunni var mér boðið á frumsýningu myndarinnar Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson. Ég get ekki neitað því að eftirvæntingin var mikil. Myndinni hafði verið lýst á þann hátt að forfallnir Woody Allen aðdáendur eins og ég ættu að kunna að meta hana. Ég var líka kvíðinn því þegar væntingarnar eru miklar er oft stutt í vonbrigðin. Það er ekki á hvers manns færi að feta í fótspor meistarans.
Það er skemmst frá því að segja að einhverjum tveimur tímum eftir að myndin hófst gekk ég skælbrosandi út úr Háskólabíó. Reykjavík, Ásgríms Sverrissonar er alls engin Woody Allen stæling. Það hefði ekkert verið gaman að slíkri mynd. Ef maður vill fá 100 prósent Woody Allen þá horfir maður bara á Woody Allen mynd, einfalt mál.
Í Reykjavík tekst Ásgrími að gera það sama fyrir borgina og umhverfi hennar og meistara Allen tekst gjarnan í sínum borgarmyndum, fyrst New York og síðar evrópskar borgir á borð við London, París, Barcelona og Róm. Maður þekkir borgina en sér á henni alveg nýja hlið – skemmtilega og seiðandi hlið sem dregur mann til sín. New York er yndisleg borg en borgin sjálf kemst samt ekki með tærnar þar sem New York Woody Allens er með hælana. Það er ekki hægt að skýra þetta út. sama má segja um Reykjavík Ásgríms. Hún tekur Reykjavík Dags B. Eggertssonar fram á öllum sviðum.
Sumpart er það myndatakan og klippingin sem töfrar fram áhrif en mestu máli skiptir pottþétt handrit, sem er hnitmiðað og lendir aldrei á villigötum. Handritshöfundurinn veit alveg hvert hann vill fara með söguþráðinn og myndina. Svo er það leikurinn og þar með auðvitað leikstjórnin, sem færir töfra á tjaldið.
Samtölin í Reykjavík eru mörg hver dásamleg. Hjónasamtöl sem byrja sakleysislega en vinda upp á sig með gagnkvæmum misskilningi þar til ljóst er að einhver sefur á sófanum. Maður kynnist persónunum smám saman í gegnum samtölin og áttar sig á því hvað sumar þeirra eru líkar manni sjálfum og aðrar einhverjum sem maður þekkir. Ófullkomleiki höfuðpersóna magnast með hverri mínútu en án þess þó að úr verði Bergmanískt þunglyndi. Til þess er handritið of fyndið og leikurinn of góður og kaldhæðinn.
Leikurinn í Reykjavík er alveg frábær. Valið á leikurum hefur tekist mjög vel og Ásgrími lætur greinilega mjög vel að leikstýra. Það skiptir nefnilega engu máli hve handrit er gott ef leikstjórnin er léleg og þá skiptir heldur engu máli hvað leikararnir eru góðir. Vondur leikstjóri getur eyðilagt hið besta hráefni. Í Reykjavík er hvergi veikan hlekk að finna. Atli Rafn Sigurðarson og Nanna Kristín Magnúsdóttir leika Hring og Elsu, sem eru í hjónabandskröggum. Þau eru gott fólk og ekki vantar ástina og ástríðuna en þau eru eins og vatn og olía þegar kíkt er undir yfirborðið. Hún þráir fjárhagslegt öryggi og þægindi sem áhorfandinn sér, löngu á undan Elsu, að Hringur mun aldrei veita henni.
Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikur Tolla besta vin Hrings. Í byrjun virðist hann vera með hlutina á hreinu en í svona tragíókómedíu er óhjákvæmilegt að það molnar úr fullkomnuninni eftir því sem við fáum meiri innsýn í hans líf. Hann á sín óuppgerðu mál eins og aðrir og sína djöfla að draga. Ung leikkona, Gríma Kristjánsdóttir, sem ég hef ekki séð áður, slær í gegn í þessari mynd. Hennar hlutverk er stórt og það snertir marga en betra er að sjá myndina en heyra sagt frá því. Þó er hægt að segja að Gríma hefur mikla útgeislun á tjaldinu og kemur vel til skila ungri stúlku, sem er kóketísk upp að því marki að Hringur á í mestu vandræðum. Gríma minnir dálítið á sumar þær leikkonur sem Woody Allen hefur haft dálæti á í gegnum tíðina og notað mikið í sínum myndum.
Svo er það tónlistin. Píanódjass Sunnu Gunnlaugsdóttur vísar í myndir Woody Allens en sá er munurinn að í Reykjavíker tónlistin frumsamin en Allen hefur einatt notað þekktar perlur djasstónlistarinnar í sínar myndir. Tónlistin passar einhvern veginn bara við myndina.
Til hamingju, Ásgrímur Sverrisson og aðrir sem standa að myndinni Reykjavík. Það var einu sinni sagt að New York væri svo vinaleg borg að hún hefði verið nefnd tvisvar; New York, New York! Reykjavík Ásgríms Sverrissonar er svo dásamleg að hana mætti vel nefna tvisvar; Reykjavík, Reykjavík!
Sjá nánar hér: Reykjavík, Reykjavík! | Hringbraut
Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur umræddrar kvikmyndar.