Eiríkur Jónsson skrifar á vef sinn um Reykjavík Ásgríms Sverrissonar að í henni sé „einhver sérstök birta sem ekki hefur sést í öðrum Reykjavíkurmyndum, tærari, mildari.“
Eiríkur segir í umsögn sinni:
Margir hafa reynt en þarna tókst það og þurfti Spánverja til að fanga andblæ miðborgar Reykjavíkur með þeirri áferð sem allir þekkja sem þar hafa verið.
Spænski kvikmyndatökumaðurinn Néstor Calvo var skólabróður kvikmyndasérfræðingsins Ásgríms Sverrissonar í kvikmyndaskóla í London fyrir 20 árum og nú leiða þeir hesta sína saman í fyrstu kvikmynd Ásgríms, Reykjavík, sem frumsýnd var í gær fyrir fullu Háskólabíói.
Ekki var ausið fjármagni úr opinberum sjóðum í þessa mynd en allir leggjast á eitt fyrir lítið fé og þarna fá áhorfendur í það minnsta eitthvað fyrir sinn snúð í stórkostlegri kvikmynd þó einföld sé. Skólabræðurnir Calvo og Sverrisson búa til konfekt úr lofti.
Og leikararnir:
Nanna Kristín Magnúsdóttir er með kvikmyndalúkk á heimsmælikvarða, dálítið frönsk til augnanna en þó ljós.
Atli Rafn nær hinni ófullnægðu miðaldragelgju svo unun er að fylgjast með.
Guðmundur Þorvaldsson er litli töffarinn sem blundar í flestum og Gríma Kristjánsdóttir svo innilega sæt í sínu fyrsta skrefi á tjaldinu.
Svo ekki sé minnst á alla hina.
Og tónlistin:
Leikandi léttur píanódjass eftir Sunnu Gunnlaugs sem eins og bergmálar í malbikinu ofan af Skólavörðuholti og út á Granda.
Í Reykjavík Ásgríms Sverrissonar er einhver sérstök birta sem ekki hefur sést í öðrum Reykjavíkurmyndum, tærari, mildari og það verður jafnvel bjart á Ölstofu Kormáks og Skjaldar þegar þessar reykvísku persónur skella í sig drykk til að gleyma – lífinu í Reykjavík.
101 stjarna fyrir svona léttan miðbæjarblús.
Sjá nánar hér: REYKJAVÍK – 101 STJARNA | Eiríkur Jónsson
Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur umræddrar kvikmyndar.