Leikarinn og leiklistarneminn Atli Óskar Fjalarson er nýbúinn að skrifa undir samning við umboðsskrifstofuna Paradigm. Atli Óskar fór með aðalhlutverkið í Þröstum Rúnars Rúnarssonar.
Baldvin Z leikstjóri er einnig með samning hjá umboðsskrifstofunni.
Morgunblaðið segir frá:
Atli var boðaður í viðtal hjá umboðsskrifstofunni eftir að hafa hlotið útnefninguna „Rísandi stjarna“ (e. Shooting Star) á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín sem fram fór fyrr í febrúar.
„Þeir höfðu samband við mig í kjölfarið af „Shooting Stars“ og vildu hitta mig og svo eftir að hafa sent þeim upptökur af fyrri verkefnum boðuðu þeir mig á fund og buðu mig velkominn í fjölskylduna,“ segir Atli í samtali við mbl.is.
Paradigm er ein af fimm stærstu umboðskrifstofum í Hollywood og sérhæfir sig bæði í tónlist og leiklist.
Meðal leikara sem eru á samning hjá Paradigm má nefna Adrien Brody og Antonio Banderas. Meðal tónlistarmanna má nefna Ed Sheeran, Black Eyes Peas og Coldplay.
Atli stundar nám við New York Film Academy í Los Angeles og mun útskrifast þaðan vorið 2017.
Sjá nánar hér: Skrifar undir hjá risa í Hollywood – mbl.is