Gunnar Smári: Ekki viss um langlífi Georgs Bjarnfreðarsonar

Á Facebook síðu sinni leggur Gunnar Smári Egilsson ritstjóri Fréttatímans útaf grein Jóns Gnarr um sjónvarpsþáttagerð og framtíðarsess Georgs Bjarnfreðarsonar í þjóðardjúpinu.  Hann segist vilja „snúa upp á spádóm Jóns um langlífi Georgs og spá að það verði hugmyndirnar og framgangan sem hann gerir grín að sem muni lifa lengst. Og hugsanlega lengur en bæði Jón og Georg.“

Færsla Gunnars Smára er svona:

Ekki veit ég hvort Georg Bjarnfreðarson muni lifa jafn lengi með þjóðinni eins og höfundur þessarar persónu heldur fram, en mér fannst Ólafur Ragnar alltaf frumlegasta persóna Vaktaseríanna. Ég bjóst við að vegur Ólafs Ragnars myndi vaxa eftir því sem á leið seríuna og skyldi ekki hvers vegna hans hlutverk varð alltaf minna en Georgs stærra. Á Litla-Hrauni var Georg meira að segja kominn með nýtt sidekick, Kenneth Mána, frábæra persónu sem gegndi í raun sambærilegu hlutverki og Ólafur Ragnar fram að því. Ólafur Ragnar rúmaðist ekki lengur inn í meginþráð Fangavaktarinnar og dinglaði í sínum eigin, fékk aðeins nokkrar mínútur í hverjum þætti. Mér fannst Ólafur Ragnar frumlegur af því að svona maður hafði ekki fengið að stíga á svið eða vera í bíói eða sjónvarpi fyrr. Það eru alltaf tíðindi þegar það gerist. Mikilvægt hlutverk listar er að gefa nýjum hópum andlit og rödd. Georg er hins vegar gömul persóna. Hann er eftirleikur af eftirleik af vinstri kverúlantinum og tilheyrir því í raun frekar áttunda áratug síðustu aldar en þessari öld.

Það var farið að gera grín að þessum manni þegar frjálshyggjan náði undirtökunum í hugmyndaheiminum og þegar þreyta var komin í vinstrið. Georg er tákngervingur þess sem þótti orðið hallærislegt þegar eigingirnin hafði sigrað; samfélagsleg ábyrgð, gagnrýni á samtímann og rík réttlætiskennd. Kenning frjálshyggjunnar var að allt væri þetta yfirvarp og fals; innst inni værum við öll drifin áfram af eigingjörnum hvötum og því væri ekkert að marka fólk sem héldi á lofti samfélagslegum gildum. Það væri að breiða yfir vilja sinn til að stjórna öðrum og kúga. Samfélagsleg sjónarmið fóru úr tísku. Gömlu sósíalistaflokkarnir gerðust annað hvort Blairistar og vildu nugga sér upp við kapitalið, eða kvenna- og umhverfissinnar í von um að finna nýtt upphaf sem væri ekki svona hallærislegt. Eins og Georg Bjarnfreðarson.

Í raun má skilja pólitík Jóns Gnarr út frá þessari afstöðu til samfélagsmála. Hann hafnar ekki klassískum baráttumálum sósíalískrar verkalýðsbaráttu, sem gat af sér það skásta í samfélaginu okkar, heldur hafnar Jón persónum (eða mynd sinni af persónum) sem héldu þessum málum á lofti. Hann bendir á að þær – og þar með það sem þær standi fyrir, séu hallærislegar og púkó. Þess vegna var Besti flokkurinn þröng gerræðisleg klíka en ekki lýðræðislegur stjórnmálaflokkur; Jón óttaðist að Georg mætti á fundi og tæki flokkinn yfir. Og þess vegna gekk Besti flokkurinn inn í Bjarta framtíð, sem hefur sömu afstöðu til samfélagsmála; að það sé ekki gott að halda á lofti málum af ríkri réttlætiskennd og kröfu um grundvallarbreytingar á samfélaginu heldur sé málið að vera jákvæður og fitta inn, ekki gagnrýna of mikið eða vera með leiðindi.

Af verkum Jóns má ráða að þessi stefna byggi mest á óttanum við af að vera ýtt út úr hópnum; fá ekki að vera með. Þess vegna urðu engar breytingar á stjórn Reykjavíkurborgar þegar kjósendur færðu Besta flokknum stórkostlegan kosningasigur 2010. Þótt Jón segist vera anarkisti (líklega vegna þess að sú stefna náði ekki nógu miklu fylgi til að geta fallið úr tísku) þá fylgdi stjórn Besta flokksins engin valddreifing til almennings. Borgarbúum var ekki fært aftur valdið með nokkrum hætti. Nú þegar Björt framtíð, arftaki Besta flokksins, er fallinn rækilega úr tísku (tískan er ekki auðriðin skepna) er spurning hvort persónan sem Georg Bjarnfreðarson byggir á sé ekki að blómstra meðal Pírata. Ég get alla vega ekki ímyndað mér hvar kverúlantar með ríka réttlætiskennd og brennandi samfélagsáhuga njóti sín betur í dag.

Ég vil því snúa upp á spádóm Jóns um langlífi Georgs og spá að það verði hugmyndirnar og framgangan sem hann gerir grín að sem muni lifa lengst. Og hugsanlega lengur en bæði Jón og Georg.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR