Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og Vala Halldórsdóttir þróunarstjóri Plain Vanilla hafa tekið sæti í stjórn Sagafilm. Fyrirtækið, hvers verk hlutu alls 15 tilnefningar til Edduverðlauna á dögunum, undirbýr nú gerð leikinnar þáttaraðar fyrir Skjáinn sem og kvikmyndar sem byggð verður á Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason. Þá verða tækjaleigan Luxor og Sagaevents eftirleiðis reknar sem sér einingar.
Ragna hefur sinnt ýmsum störfum í atvinnulífinu sem og íslensku samfélagi frá því að hún gengdi störfum dómsmálaráðherra á árunum 2009-2010. Vala er með B.Sc. próf í verkfræði frá Háskóla Íslands og hefur fjölbreytta starfsreynslu. Hún stýrði meðal annars heimildamyndinni Startup Kids og framleiddi spilið Heilaspuna. Aðrir stjórnarmenn eru Kjartan Þór Þórðarson, framkvæmdastjóri Sagafilm Nordic, Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu Sagafilm og Ragnar Agnarsson, sem jafnframt er formaður stjórnar.
Breytingar á rekstri
Breytingar voru gerðar á rekstri Sagafilm í upphafi árs. Tækjaleigan Luxor og viðburðafyrirtækið Sagaevents sem áður voru deildir innan Sagafilm verða nú rekin sem sér einingar. Sagaevents sérhæfir sig í framleiðslu viðburða af öllum gerðum og stærðum fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini. Luxor þjónustar fyrirtæki í viðburða- og framleiðslubransanum og tók á árinu nýjan útsendingarbíl í notkun, setti upp skautasvell á Ingólfstorgi og sá um hönnun og uppsetningu sviðsmyndar í The Voice. Í tilkynningu kemur fram að markmið breytinganna sé að auka sérhæfni, skerpa á fókus og að stefnan sé sett ákveðið inn á sértæka markaði hvers fyrirtækis. Dagmar Haraldsdóttir stýrir Sagaevents og Bragi Reynisson heldur um taumana í Luxor.
Fjölbreytt verkefni framundan
Guðný Guðjónsdóttir forstjóri ræðir um verkefnin framundan:
„Í undirbúningi er framleiðsla leikinnar sjónvarpsþáttarðar í samstarfi við Skjáinn sem byggð er á bókunum um Stellu Blómkvist. Stella er frábært kvenhluverk og við erum mjög spennt að takast á við hana. Óskar Þór Axelsson leikstýrir seríunni, en hann leikstýrði m.a. kvikmyndinni Svartur á leik og þremur þáttum Ófærðar. Einnig er unnið að fjármögnun og þróun kvikmyndarinnar Vítis í Vestmannaeyjum, sem byggð er á bókum Gunnars Helgasonar. Baldvin Z, leikstjóri Vonarstrætis og spennuþáttaraðarinnar Réttar sem Sagafilm framleiddi fyrir Stöð 2, leikstýrir myndinni, en Jóhann Ævar Grímsson og Ottó G. Borg skrifa handrit í samstarfi við Gunnar Helgason. Við búum svo vel að fá tækifæri til að vinna með hæfileikaríku fólki við framleiðslu gæðaefnis fyrir íslenskan sem og erlendan markað. Sagafilm hlaut 15 tilnefningar til Eddunnar á dögunum, þar af átta fyrir Rétt; árangur sem við erum afar stolt af.“