Morgunblaðið birtir í dag viðtal við hina heimskunnu frönsku leikkonu Emmanuelle Riva, sem nú leikur í kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur, Alma.
Í viðtalinu, sem Anna Margrét Björnsson tekur, segir Riva meðal annars:
„Það er alveg merkilegt hvað mér hefur boðist mikið af verkefnum á gamals aldri. Ég er afskaplega heppin. Það hjálpar mér að vera ennþá hress. Maður finnur að maður er ennþá til einhvers nýtur. En flugvélar þreyta mig. Mig langaði bara svo mikið að vinna með Kristínu. Hún valdi mig, hún hafði séð mig í Hiroshima mon amour og í Amour og hún sagði: „Ég vil fá hana, já og takk.“ Og ég sló strax til. Handritið að kvikmyndinni er algjörlega stórkostlegt, ég kolféll fyrir því. Það er dramatískt, töfrandi, erfitt og fyndið allt í senn. Ég ætla ekki að segja þér frá allri sögunni en í stuttu máli leik ég gamla konu, franska, á móti annarri gamalli konu sem er íslensk og leikin af Kristbjörgu Kjeld. Þær þekktu báðar móður ungrar stúlku, Ölmu, og stúlkan annast svo konurnar tvær í ellinni. Í myndinni á sér stað dramatísk atburðarás með ýmislegum persónum og atvikum.“
Riva segir kvikmyndina gerólíka öllu sem hún hefur áður fengist við. „Þú skilur, það er þannig að þegar maður er leikari vill maður alls ekki endurtaka sig.“ Henni verður mikið niðri fyrir. „Ég þoli ekki þetta „le star system“ (stjörnukerfið). Ég er gersamlega mótfallin því. Allir eru svo vanir einhverskonar stjörnudýrkun í heiminum í dag. Mér var boðið þetta stjörnukerfi í kjölfar Hiroshima mon amour en ég hafnaði því algjörlega. Það olli mér erfiðleikum í kjölfarið af því þegar maður neitar þá verður fólk móðgað. Svo kemur bara einhver eyðimörk þar sem maður fær ekkert að gera,“ útskýrir hún. „En svo bara kom þetta allt aftur. Ég byrjaði að leika aftur, á sviði, í útvarpi, í kvikmyndum.“
Hún verður dálítið kímin á svip og lækkar róminn. „En ég er alltaf að ýkja. Það er bara minn stíll. Ekki taka mark á mér. Og ekki skrifa þetta allt,“ segir hún og hlær.
Gæti dáið hvenær sem er
En aftur að hinni íslensku kvikmynd. „Kristbjörg er alveg stórkostleg, og líka unga stúlkan sem leikur Ölmu. Kristín velur ótrúlega vel í hlutverkin og það er svo mikilvægt. Mér finnast þessar leikkonur alveg einstakar.“ En hvar eiga tökurnar sér stað? spyr ég og fer að hugsa um febrúarkuldann.
„Nú, við erum bara alltaf inni í gömlu húsi. Alltaf sama húsinu. Við Kristbjörg getum ekki verið í útitökum, þú skilur það. Við gætum dáið. Gætum kannski fengið lungnabólgu og dáið.“ Nú fer ég að skellihlæja.
„Trúir þú mér ekki? Finnst þér þetta fyndið? Ég gæti nú bara dáið hvenær sem er,“ segir hún en brosir svo. „Jæja, allt í lagi, það er ágætt að þú trúir mér ekki. En þess vegna erum við alltaf inni í þessu sama skrýtna húsi á mörgum hæðum. Sviðsmyndin, líkt og handritið, er alveg einstaklega áhrifamikil og heillandi.“
Sjá nánar hér: „Hefði litið fáránlega út með Óskarsverðlaun“ – mbl.is