Gott áhorf á „Ófærð“ í Frakklandi

ófærð ólafur darriFyrstu fjórir þættirnir af Ófærð voru sýndir á France 2, frönsku ríkisstöðinni, í gærkvöldi. Þættirnir fengu meira áhorf en búist var við, en alls horfðu um fimm milljónir manna á þá.

Í tilkynningu frá Rvk Studios, framleiðanda þáttanna, segir meðal annars:

Vinsældir seríunnar komu öllum aðstandendum í opna skjöldu enda vissu menn fyrirfram að um mikla samkeppni var að ræða. Tvær nýjar franskar seríur voru einnig frumsýndar þetta kvöld og því bjuggust menn hjá France 2 ekki við að ný íslensk sería mundi halda í við það vinsælasta í frönsku sjónvarpi, en Ófærð endaði í öðru sæti með 18% hlutdeild.

Fjölmiðlar í Frakklandi hafa slegið upp fréttum af þessum miklu vinsældum og þykir mönnum France 2 hafa sýnt hugrekki að tefla fram seríu frá Íslandi á besta sýningartíma.  Í franska dagblaðinu Le Parisien birtist dómur í morgun þar sem þáttaröðin fær fjórar stjörnur af fimm og þykir jafnast á við hina bresku Broadchurch að gæðum.

Le Parisien - ÓfærðÁhorfstölur sem þessar mundu teljast mjög góðar hvar í heiminum sem er. Til samanburðar má nefna að Fortitude þótti gera það gott á Sky með um eina milljón áhorfenda.

Þættirnir eru einnig sýndir í Noregi í þessar mundir og áhorfið þar helst stöðugt, en í kringum 500 þúsund horfa þar í hverri viku.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR