Kvikmyndaráð leggur til að þættir í starfsemi RÚV verði endurskoðaðir sem og sameiningu Kvikmyndasafns við Kvikmyndamiðstöð

island_flatarmal_stor_090712Í annari umfjöllun Klapptrés (af þremur) um tillögur Kvikmyndaráðs er sagt frá hugmyndum ráðsins um fyrirkomulag innviða á borð við form stuðnings við greinina, menntunarmál, fræðilegar rannsóknir, safna- og varðveislumál og stuðning við hátíðir og kvikmyndasýningar. Meðal tillagna eru endurskoðun á hlutverki RÚV og aðkomu þess að kvikmyndagerð auk þess sem lagt er til að skoðað verði að sameina Kvikmyndasafn Kvikmyndamiðstöð og færa sýningahald þess í Bíó Paradís.

Fyrsta hluta, tillögur ráðsins um breytingar á úthlutunarfyrirkomulagi, má skoða hér.

Þriðja hluta, mat ráðsins á samkomulaginu 2012-2015 má lesa hér.

Rannsóknir og skrif

Efla þarf fræðiskrif um íslenskar kvikmyndir og gera fræðimönnum kleift að sækja um styrki til fræðistarfa og útgáfu.

Tillaga: Auka þarf aðgengi fræðimanna á þessu sviði á þá stjóði eða stofnanir sem sinna styrkveitingum á þessu sviði. Nauðsynlegt er að eyrnamerkja fjárhæðir til þessara fræða.

Óvissa og endurskipulagning opinbers stuðnings

Ekki er lengur hægt að gera ráð fyrir að hefðbundin tekjuöflun skili þeim tekjum sem áður var. Gestakomur í kvikmyndahús hafa staðið í stað sl. 10 ár og gestum ekki fjölgað í takt við fjölgun íbúa. Efni er nú dreift í flestum miðlum á neti og í gegnum sjónvarp. Við blasir nokkur óvissa, ólöglegt niðurhal er staðreynd, staðreynd á kostnað kvikmyndagerðarfólks og hvergi er hægt að sjá að lausn sé í sjónmáli. Þá er ekki vitað hver langtímaáhrif efnisveita á borð við Netflix munu hafa.

Brýnt er einnig að auðvelda aðgengi almennings að höfundaréttarvörðu efni og að tryggja rétthöfum sanngjarnt endurgjald fyrir eintakagerð til einkanota af verkum þeirra. Sá gjaldstofn sá er stóð undir þessu endurgjaldi (Innheimtumiðstöð gjalda) hefur úrelst með árunum vegna tæknibreytinga og er nú svo komið að nær engar greiðslur berast til rétthafa vegna þessarar notkunar.

Mjög mikilvægt er að skilgreina stöðuna hér á landi, greina sóknarfæri og setja fram tillögur að nauðsynlegum breytingum eða viðbrögðum. Skoða ætti hvaða aðgerðir aðrar þjóðir hafa farið í. Nágrannaþjóðir hafa tekið upp ýmsar mótvægisaðgerðir eða hafa boðað þær til dæmis með auknum stuðningi vegna tekjumissis. Ljóst er að ofangreindar breytingar munu hafa víðtæk áhrif, ekki bara á kvikmyndagerð heldur einnig á sjónvarp. Þeim fækkar sem nýta beina dagskrá og þeim fjölgar sem sækja sér efni eftir þörfum. Hlutverk og starfsemi stofnunar eins og RÚV hlýtur að taka breytingum að sama skapi, jafnvel í þá átt að enn stærri hluti af fjármagninu fari í að styrkja og efla sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildamyndagerð og minna til beinnar dagskrárgerðar.

Tillaga: Á árinu 2016 verði sérfræðingar fengnir til að kortleggja og greina sóknarfærin í íslenskri kvikmyndagerð og í framhaldi verði skipulag opinbers stuðnings endurskoðað heildstætt – Hlutverk og starfsemi RÚV þar með talin. Horft verði til þess hvernig tryggja megi rétthöfum sanngjarnt endurgjald.

Tillaga: Skoða aðkomu RÚV að samkomulagi um kvikmyndagerð þar sem að miðillinn skiptir gríðarlegu máli fyrir þróun kvikmyndagerðar í landinu.  

Miðastyrkir

Útfærsla og afgreiðsla miðastyrkja þarf að komast í fast horf. Tekið hefur alltof langan tíma að innleiða lausnir. Biðin veldur skaða. Framleiðendur eiga einfaldlega mjög mikið undir í því að þessi liður í samkomulagi frá 2011 verði kláraður. Það hefur verið veitt fyrir þessu á fjárlögum öll árin og mjög mikilvægt er að svo verði áfram.

Tillaga: Ráðuneyti klári að leysa útfærslu miðastyrkja eins fljótt og hægt er. Ótækt er að ekki sé áfram gert ráð fyrir miðastyrkjum á fjárlögum.

Markaðssetning

Vinna þarf að því að koma íslenskum myndum að á erlendum kvikmyndahátíðum og á stafrænum mörkuðum. Kvikmyndamiðstöð annast markaðssetningu íslenskra kvikmynda. Miðstöðin hefur takmarkað fjármagn til þess og stöðugildum í markaðssetningu hefur fækkað tilfinnanlega frá 2008. Halda ætti áfram að leggja áherslu á A – hátíðir og stærri hátíðir, halda úti öflugum tengslum við fagblaðamenn.

Þá er nauðsynlegt að gera ráð fyrir stuðningi við aðstandendur kvikmynda til að fylgja eftir verkum sínum. Skýrt þarf að vera hvaða fjármagni á að veita til þess og reglur aðgengilegar og skýrar.

Tillaga: Að fjármagn til markaðssetningar aukist verulega á tímabilinu svo stöðugildum fjölgi sem sinna henni.

Sameining Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasafns

Kvikmyndaráð telur að skoða þurfi hvort sameina ætti Kvikmyndamiðstöð og Kvikmyndasafn. Taka ætti ákveðna þætti í starfsemi RÚV inn í sömu skoðun. Svo virðist sem í einhverjum tilfellum séu margir aðilar að vinna sömu verk. Til dæmis eru Kvikmyndamiðstöð, RÚV og Kvikmyndasafnið að sinna varðveislumálum. Bæði Kvikmyndasafn og Bíó Paradís sinna sýningu listrænna mynda, greina þarf hvort meira má gera fyrir fjármagnið með endurskipulagi þessara þátta.

Tillaga: Hlutverk og starfsemi Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasafnsins verði rýnd og endurskoðuð með tilliti til aukinnar hagræðingar. 

Kvikmyndahátíðir og sýning listrænna mynda

Halda þarf áfram stuðningi við kvikmyndahátíðir og sýningu listrænna mynda. Gera  langtímasamninga við hátíðir og aðila sem sinna sýningu listrænna mynda.

Menningar- og menntamálaráðuneytið ætti að beita sér fyrir því að gera langtímasamninga við hátíðir og listræn kvikmyndahús svo skipuleggja megi betur og yfir lengri tímabil. Það ætti einnig að vera svigrúm hjá menningarmálaráðuneytinu að veita styrki með skömmum fyrirvara ef að stórir styrktaraðilar hellast úr lestinni.

Hátíðirnar eru mjög mikilvægar fyrir kvikmyndageirann og áhugafólk hérlendis. Heimsóknir erlendra kvikmyndagerðarmanna skapa mikilvægt samtal og efla tengsl.  Vinna skal áfram að því að auka framboð á kvikmyndum frá öllum heimshornum á Íslandi.

Tillaga: Að halda áfram stuðningi við hátíðir og þá sem sýna listrænar myndir og veita þeim rekstrargrundvöll með langtímasamningum.

Kvikmyndasafnið í samstarfi við Heimili kvikmyndanna – Bíó Paradís komi upp ásættanlegri sýningaraðstöðu til frambúðar á sögulegum kvikmyndum og skipuleggi reglulega sýningar fyrir almenning.

Varðveisla

Kvikmyndasafn skal skv. lögum sjá um varðveislu kvikmyndaarfsins, endurnýjun eldri kvikmynda og ráðstafanir til að vernda nýjar myndir sem eru aðeins framleiddar og sýndar stafrænt. Unnið hefur verið að því að bjarga frumeintökum íslenskra kvikmynda, RÚV hefur séð um eigið efni en nauðsynlegt er að marka enn betur hvernig og hverjir skuli sinna þeirri vinnu. Ákveða þarf hver forgangsröðunin á að vera og hvernig er best að sinna því.  Um leið þarf að skoða hvernig skráningu sjónvarpsefnis er háttað. Þá þarf að fjárfesta í nýlegri tækjabúnaði en nú býðst. Kvikmyndasafn hefur tekið saman rök og sett í skýrslu um þetta mál sem send hefur verið til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins til athugunar.

Enn frekar er mikilvægt að koma safnkostinum á stafrænt form til að auðvelda aðgengi og notkun á því efni sem Kvikmyndasafnið hefur yfir að ráða. Þar sem að landið er lítið og fámennt er sérsaklega mikilvægt að unnið verði að sameiginlegri að lausn og forðast þá tilhneigingu að hver stofnun vinni ein í sínu horni.  Mjög mikilvægt er að allir hagsmunaaðilar kæmu að þróun á slíkum gagnagrunni þar með taldir: RÚV, Kvikmyndasafnið, Háskólasamfélagið, Listasöfn, einkareknar sjónvarpsstöðvar og fagfélög í kvikmyndagerð.

Tillaga: Tekin verði afstaða til draga að verklagsreglum Kvikmyndasafnsins um skipulag varðveislu sem nú þegar liggja fyrir. Verklag verði einnig skoðað út frá skyldri starfsemi innan Kvikmyndamiðstöðvar og RÚV.

Tillaga: Fjárfest verði í búnaði eða skanna og í kjölfarið gert varðveisluátak til að lágmarka mögulegt tjón. Kostnaður vegna skanna er þekkt stærð en jafnframt þarf að meta kostnað vegna átaksins og kanna samstarfsmöguleika við erlenda aðila, s.s. norrænu kvikmyndasöfnin.

Kvikmyndamenntun

Í byrjun árs 2017 liggi fyrir tillögur, útfærðar í samvinnu við hagmunaðila í greininni um hvernig framtíðartilhögun á kvikmyndamenntun á Íslandi verður hagað. Unnar verði tillögur um tilhögun náms á háskólastigi. Áfram verði unnið að skilgreiningu á kvikmyndakennslu á grunn- og framhaldsskólastigi.  Kvikmyndagreinin telur í dag rúmlega 1.000 ársverk án afleiddra starfa og mikil þörf komin á að koma þessum málum á hreint. Áfram þarf að styðja og efla kvikmyndalæsi barna.

Tillaga: Ráðuneytið í samráði við hagsmunaaðila leggi fram áætlun um hvernig skipuleggja má háskólanám í kvikmyndagerð fyrir 1. janúar 2017.

Tillaga: Skilgreint verði hvernig efla má kennslu og menntun í kvikmyndalæsi.

Tillaga: Styðja áfram við verkefni sem stuðla að kvikmyndalæsi barna í samstarfi við grunnskóla.

Tillaga: Áfram unnið að skilgreiningu kvikmyndakennslu á grunn- og framhaldsskólastigi.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR