Morgunblaðið birtir viðtal við David Cronenberg, annan heiðursgesta RIFF í ár.
Þar segir meðal annars:
Cronenberg vakti fyrst athygli fyrir svokallaðar „body horror“-myndir á áttunda áratugnum, hrollvekjur sem hafa að geyma líkamlegan hrylling, líkamstjón og ofbeldi, höfuð sem springa og útlimamissi svo dæmi séu tekin. Andleg veikindi og ótti hafa verið algeng stef í myndum Cronenbergs sem fjalla flestar á myrkan hátt um eðli mannsins. Cronenberg hefur tekist á við vísindaskáldskap í mörgum mynda sinna og í seinni tíð þokast frá líkamshryllingnum yfir í öllu sálrænni, dramatískari frásagnir. Í kvikmyndinni Eastern Promises frá árinu 2007 fjallaði hann um rússneska mafíufjölskyldu í Lundúnum og í A Dangerous Method frá árinu 2011 tók hann fyrir samband geðlæknanna Carl Jung og Sigmund Freud, svo dæmi séu tekin um þá beygju. En þrátt fyrir fjölbreytt höfundarverk verður Cronenberg eflaust fyrst og fremst minnst sem eins fremsta hrollvekjuleikstjóra kvikmyndasögunnar, þó að hann líti ekki sjálfur á myndir sínar sem hryllingsmyndir.
Kvikmyndir voru eins og bílar
Cronenberg fæddist í Toronto árið 1943 og varð 72 ára í mars sl. Móðir hans var tónlistarkona, faðir hans rithöfundur sem rak einnig bókabúð og sem drengur skrifaði Cronenberg sögur af miklum móð. Þegar kom að háskólanámi valdi hann líffræði en skipti svo yfir í bókmenntafræði. Hann ætlaði sér að verða vísindamaður og rithöfundur en sneri sér að kvikmyndagerð eftir að hafa séð kvikmynd eftir bekkjarfélaga sinn David Secter, Winter Kept Us Warm, árið 1966, sem skólafélagar hans léku í.
„Sú staðreynd að myndin væri til,“ svarar Cronenberg, léttur í bragði, þegar hann er spurður að því hvað það hafi verið við myndina sem kveikti áhuga hans á kvikmyndagerð. Hann segir kvikmyndagerð ekki hafa verið til staðar í Toronto eða Kanada yfirleitt á þessum tíma. „Kvikmyndir voru eins og bílar, þær komu að utan, frá Bandaríkjunum eða Evrópu. Þegar ég sá kvikmynd sem leit út eins og alvöru kvikmynd, mynd sem skólafélagar mínir léku í, varð ég frá mér numinn. Það er erfitt að lýsa þeirri tilfinningu núna þegar börn eru farin að taka upp myndir á snjallsímana sína en það var mikil uppgötvun fyrir mig á sínum tíma að ég gæti gert alvöru kvikmynd í Toronto með fólki þaðan. Það var heilmikil hugljómun og mig langaði að sjá hvort ég gæti þetta.“
Sjá viðtalið í heild hér: Sjálfsvitundin heillandi viðfangsefni – mbl.is