Í desember verða 60 ár liðin frá því að Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Af því tilefni sýnir RÚV allar kvikmyndir sem gerðar hafa verið eftir sögum hans. Þar á meðal eru sjaldséðar perlur eins og Brekkukotsannáll, Paradísarheimt, Salka Valka og Atómstöðin sem ekki hafa verið sýndar opinberlega í áratugi. Einnig verða sýndar myndirnar Kristnihald undir jökli og Ungfrúin góða og húsið. Allar verða þær sýndar í fyrsta sinn í íslensku sjónvarpi í endurbættum útgáfum, bæði hvað varðar hljóð- og myndgæði.
Myndirnar verða sýndar á sunnudagskvöldum í vetur og er það liður í sýningum á leiknu íslensku efni alla sunnudaga í vetur. Myndirnar verða sýndar í aldursröð frá 18. október til 13. desember og er Salka Valka frá 1954 fyrst á dagskrá.
Í tengslum við myndirnar verða sýndir stuttir þættir með gömlum mynd- og hljóðbrotum þar sem Laxness ræðir um verk sín. Þá verður sýnd ýmis önnur dagskrá tengd Nóbelsskáldinu meðan á veislunni stendur, stakir þættir, stuttmyndir og annað.
Síðastliðinn mánudag var undirritað samkomulag milli RÚV og Guðnýjar Halldórsdóttur, kvikmyndagerðarkonu og dóttur Nóbelsskáldsins, þar sem RÚV leggur fram fé til endurbóta og kaupa á sýningarrétti á nýendurbættum eintökum af ofantöldum kvikmyndaverkum. Guðný átti frumkvæðið og veg og vanda að þessu þjóðþrifaverki ásamt eiginmanni sínum og meðframleiðanda Halldóri Þorgeirssyni. Samkomulagið var undirritað á Gljúfrasteini af Guðnýju, Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra og Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra RÚV.
Aðrir miðlar RÚV taka einnig þátt í að minnast 60 ára nóbelsafmælis Laxness með dagskrárgerð og viðburðum sem tengjast nóbelskáldinu á ruv.is og í útvarpinu. Rás 1 hefur frá því í maí flutt lestur skáldsins sjálfs á völdum verkum við afar góðar undirtektir hlustenda. Þegar hefur lestur hans á Gerplu og Brekkukotsannál verið fluttur. Nú stendur yfir lestur á Kristnihaldi undir Jökli og að endingu les hann Í túninu heima. Í desember er svo gert ráð fyrir að Víðsjá geri sérstaka dagskrá í tilefni af nóbelsafmælinu.
Laxness-veisla RÚV:
- 18/10 – Salka Valka
- 25/10 – Brekkukotsannáll (1:2)
- 1/11 – Brekkukotsannáll (2:2)
- 8/11 – Paradísarheimt (1:3)
- 15/11 – Paradísarheimt (2:3)
- 22/11 – Paradísarheimt (3:3)
- 29/11 – Atómstöðin
- 6/12 – Kristnihald undir Jökli
- 13/12 – Ungfrúin góða og húsið
Brekkukotsannáll endurbætt frá grunni
Brekkukotsannáll er sjónvarpsmynd í tveimur hlutum sem tekin var upp 1972 og fjármögnuð að miklu leyti af Ríkisútvarpinu. Myndin þótti algert þrekvirki og var fyrsta stórmynd sem Ríkissjónvarpið kom að. Myndin hefur verið ófáanleg og og ósýningarhæf í mörg ár en hefur nú verið endurbætt (restored). Ekki ein sekúnda í var í lagi í eintaki sem til var hér á landi. Því þurfti að leita til Norðurlanda og Þýskalands.Þar sem ekkert heillegt eintak af myndinni var til þar þurfti að púsla saman mynd með völdum köflum úr þeim eintökum sem til voru.
Guðný Halldórsdóttir, kvikmyndaleikstjóri og dóttir Halldórs Laxness, og Halldór Þorgeirsson framleiðandi, sem saman reka Kvikmyndafélagið Umba, hafa staðið á bak við endurbætur myndarinnar. Guðný vann sjálf í myndinni sem aðstoðarkona í búningadeild, þá aðeins sautján ára gömul.
Halldór segir að á íslenskan mælikvarða sé Brekkukotsannáll ennþá stórmynd og telur að sjónvarpið hafi aldrei farið í jafn dýra framkvæmd, hvorki fyrr né síðar. Bara leikmyndin hafi verið með stærstu leikmyndum sem hafa verið byggðar á Ísland og myndi í dag myndi kostað milli 400 og 500 milljónir króna.
Í myndinni leika margir af fyrstu stórleikurum Íslands sem margir hverjir eru ókunnir yngri kynslóðum. Má þar helst nefna Þorstein Ö. Stephensen, Brynjólf Jóhannesson, Regínu Þórðardóttur og að sjálfsögðu Jón Laxdal sem á stórleik sem söngvarinn Garðar Hólm. Einnig má nefna að Sigrún Hjálmtýsdóttir leikur stóra rullu aðeins 17 ára gömul.
Hér að neðan má sjá stutt innslag sem unnið var fyrir nokkrum árum og fjallar um gerð þáttanna.