Jafnrétti í kvikmyndum og við framleiðslu þeirra er mikilvægt eins og á öðrum sviðum samfélagsins. Það kemur ekki af sjálfu sér og því er öll umræða og upplýsingar um jafnréttismál af hinu góða.
Núverandi ríkisstjórn skar niður fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar með þeim afleiðingum að Kvikmyndasjóður minnkaði á síðasta ári um 39% frá því sem hann var árið áður. Allir geta ímyndað sér hvernig fyrirvaralaus niðurskurður af þessari stærðargráðu kæmi niður – á hvaða atvinnugrein sem er.
Þegar áhrif þessara aðgerða komu fram fóru konur í kvikmyndagerð að viðra þær áhyggjur að þær nytu ekki jafnréttis á við karla þegar kæmi að úthlutun fjár úr Kvikmyndasjóði. Hrukku margir upp við þau orð því enginn áhugi er á því innan greinarinnar að mismuna konum.
Til að kanna hvort rétt væri lagðist Kvikmyndamiðstöð yfir umsóknir og úthlutanir síðustu ára og niðurstaðan var að það væri kynjahalli – en hann væri konum í vil.
Það eru góðar fréttir að við úthlutun opinbers fjár til kvikmyndagerðar sé síður en svo hallað á konur.
Meirihluti úthlutana fer engu að síður til verkefna sem karlar standa á bak við, einfaldlega vegna þess að þeir og þeirra umsóknir eru fleiri.
Félagsmenn í Samtökum kvikmyndaleikstjóra eru 77% karlar á móti 23% konum. Samkvæmt umsóknum um starfslaun listamanna er hlutfallið hjá tónskáldum 74% karla á móti 26% kvenna. Hjá rithöfundum er þetta hlutfall 55% karla á móti 45% kvenna. Meðal myndlistarmanna eru karlar 40% á móti 60% kvenna og hjá hönnuðum eru karlar 17% á móti 83% kvenna.
Ef yfirvöld menningarmála vilja jafna fjölda karla og kvenna í skapandi greinum er því mikið verk framundan.
Annað atriði sem mjög hefur verið til umræðu er að karlar séu oftar viðfang íslenskra kvikmynda en konur. Að þar sé kynjahalli sem þurfi að leiðrétta.
Þetta sjónarmið á fullan rétt á sér. Raunar er það svo að karlar gera líka kvikmyndir þar sem konur eru í forgrunni og konur gera kvikmyndir um karla. En það er eitthvað skakkt í samfélagi þar sem annað kynið er mikið sjaldnar aðalpersónur kvikmynda. Þar ríkir ekki jafnrétti.
Hugmyndin sem helst hefur verið til umræðu, og er ætlað að ráða bót á þessu vandamáli, gengur undir nafninu Kynjakvóti í kvikmyndagerð og er sú að helmingur þess fjár sem úthlutað sé til kvikmynda renni til kvenkyns umsækjenda. Með öðrum orðum verði verkefni ekki fyrst og fremst metin út frá gæðum, heldur verði líka tekið tillit til kyns umsækjenda við afgreiðslu umsókna.
Eins og Jón Steinar benti á kemur þessi leið ekki til greina (þótt hún sé rædd opinberlega eins og ekkert sé sjálfsagðara) því hún er klárt brot á jafnréttisreglu stjórnarskrár. Hver þau lög eða reglugerð sem sett væru í þessa veru falla því dauð.
En hvaða leiðir eru þá færar til auka jafnrétti í kvikmyndagerð og fá fleiri kvikmyndir um konur?
Eitt af því sem við getum gert er að hvetja stúlkur til að leggja fyrir sig kvikmyndagerð og skrifa handrit. Í dag eru strákar í miklum meirihluta þeirra sem mennta sig í faginu og svo hefur verið alla tíð. En til þess að laða fleiri konur að þarf kvikmyndagerð á Íslandi að komast af því stigi að fagfólk sé í stöðugri óvissu um framtíðina. Það stendur upp á stjórnmálamenn að sú rússibanreið sem Kvikmyndasjóður hefur verið í undanfarin ár hætti.
Annað sem við getum gert er að standa okkur betur sjálf. Umræðan undanfarið hjálpar örugglega til þess. Baltasar mun til dæmis aldrei aftur ráða eingöngu karlmenn til að skrifa og leikstýra sjónvarpsseríu. Það er gott – en hann er ekki einn. Við þurfum öll að vera meðvitaðri um jafnrétti.
Gott ráð er líka að skipta um nöfn á söguhetjum handritanna. Leikkonan Gena Davis sem hér var á dögunum hefur verið óþreytandi að benda framleiðendum í Ameríku á þessa leið. Það er engin ástæða fyrir því að söguhetjur flestra kvikmynda eru karlmenn – önnur en gamall vani.
Svo gæti Kvikmyndasjóður vel haft þá stefnu að aðalpersónur íslenskra kvikmynda verði að jöfnu karlar og konur – burtséð frá kyni umsækjanda.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að við komum á jafnrétti í íslenskum kvikmyndum. Það er í okkar höndum.