Svona styðja Danir við lágkostnaðarmyndir

Claus Ladegaard, yfirmaður framleiðslu- og þróunardeildar DFI: Mikilvægt að halda boltanum rúllandi.
Claus Ladegaard, yfirmaður framleiðslu- og þróunardeildar DFI: Mikilvægt að halda boltanum rúllandi.

Danska kvikmyndastofnunin (DFI) segir hina nýlegu „Low Budget“ áætlun sína miða að því að fjölga leikstjórum og auka breiddina í þeirra hópi. Bransinn styður framtakið og fyrstu tvö verkefnin hafa fengið grænt ljós. 

Þetta kemur fram á vef Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins, en skoða má lýsingu DFI á áætluninni hér.

Þar kemur meðal annars fram að markmið áætlunarinnar er að styðja smærri verk sem feta nýjar slóðir í annaðhvort frásagnarnálgun eða framleiðsluaðferðum. Ekki er ætlunin að gera einfaldlega ódýrari útgáfur af „hefðbundnum“ myndum. Þetta þýði að framleiðsla og efnistök verði að hugsa sem eina heild og hún verði að henta inní prógrammið.

Þessum stuðningi sé bæði beint að nýju fólki og fyrirtækjum sem geta brugðist skjótt við og klárað á skemmri tíma, en einnig beint að reynsluboltum sem vilja takast á við nýjar áskoranir og gera hlutina öðruvísi. Ekki er gerð krafa um að myndirnar verði frumsýndar í kvikmyndahúsum.

Sótt er um styrki vegna lágkostnaðarmynda (low budget) í gegnum hin þrjú fyrirliggjandi stuðningskerfi DFI; ráðgjafakerfið, markaðskerfið og New Danish Screen.

Áætluninni var startað í febrúar en hún gengur útá að styrkja verkefni með heildarkostnað upp að þremur milljónum danskra króna (um 60 milljónir íslenskar) um 80% – og verkefni með heildarkostnað upp að sex milljónum danskra króna (um 120 milljónir íslenskar) um 60%. Gert er ráð fyrir að 3-6 kvikmyndir fái stuðning á þennan hátt árlega.

Samkvæmt tölum DFI frá 2013 hljóðar meðal kostnaðaráætlun danskrar kvikmyndar uppá 2,8 milljónir evra eða um 413 milljónir íslenskra króna. Sambærilegar tölur liggja ekki fyrir hér á landi en ætla má að meðalkostnaður kvikmyndar sem fær framleiðslustyrk frá KMÍ nemi einhversstaðar á milli 150-200 milljónum króna.

Claus Ladegaard, yfirmaður framleiðslu- og þróunardeildar DFI, segir:

“Við vildum að nýtt fólk fengi tækifæri til að gera bíómyndir fyrr en áður var. Við höfum þessvegna gert bransanum ljóst að DFI mun meta umsóknir hratt og að þróunarferlinu verði flýtt svo að framleiðsla geti hafist sem fyrst. Það er afar mikilvægt að halda boltanum rúllandi og áhuganum vakandi hjá framleiðslufyrirtækjunum.“

Sjá nánar hér: Nordisk Film & TV Fond :: DFI Low Budget Film Scheme Up And Running

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR