Ásthildur Kjartansdóttir filmar „Tryggðapant“ 

Ásthildur Kjartansdóttir. (Mynd: Fréttablaðið/Vilhelm).
Ásthildur Kjartansdóttir. (Mynd: Fréttablaðið/Vilhelm).

Ásthildur Kjartansdóttir hyggst ráðast í tökur á fyrstu bíómynd sinni í haust. Verkið er byggt á skáldsögunni Tryggðapantur eftir Auði Jónsdóttur. Framleiðandi er Eva Sigurðardóttir hjá Askja Films. Þær leita nú að erlendum konum á aldrinum 25-50 ára til að leika í myndinni.

Fréttablaðið segir frá. Í fréttinni kemur þetta meðal annars fram:

„Sagan segir frá konu sem leigir erlendum konum herbergi heima hjá sér til þess að ná endum saman, það gerir hún líka af því að hún hefur starfað sem blaðamaður af og til og fær það verkefni að skrifa um útlendinga. Sambúðin gengur ágætlega til að byrja með og svo fer allt fjandans til,“ segir hún um handritið.

„Mér fannst sagan rosalega spennandi og eiga erindi í íslenskt samfélag. Sagan vekur upp áleitnar spurningar varðandi útlendinga sem brenna á okkur í dag.“

Ásthildur er 64 ára gömul og líkt og áður sagði er þetta hennar fyrsta leikna kvikmynd í fullri lengd en hana hefur langað til þess að vinna að slíku verkefni. Hún hefur leikstýrt og framleitt fjölda heimildarmynda og einnig gert stuttmyndir og leikið sjónvarpsefni og segist alla tíð hafa haft áhuga á kvikmyndagerð.

„Ég hafði alltaf áhuga en gerði nú ekkert úr því fyrr ég var rúmlega þrítug. Þegar ég var að útskrifast úr MR þekkti ég enga konu sem hafði farið í kvikmyndagerð en ég dreif mig samt. Þetta hefur breyst mikið núna.“

Ásthildur og Eva Sigurðardóttir, framleiðandi hjá Askja Films sem framleiðir myndina, leita nú að útlenskum konum til að fara með tvö aðalhlutverk í myndinni og hefur Ásthildur þegar rætt við nokkrar sem koma til greina en vill hitta enn fleiri en í öðru aðalhlutverki í myndinni er leikkonan Elma Lísa Gunnarsdóttir.

Stefnt er á að tökur hefjist nú í október en myndin hlaut ekki styrk frá Kvikmyndasjóði sem Ásthildur segir hafa verið ákveðin vonbrigði. „Reynsla mín og annarra kvenna af Kvikmyndasjóði hefur ekki verið góð og þá sögu vil ég segja við annað tækifæri,“ en hún hafi samt sem áður ákveðið að láta slag standa og leitað annarra leiða til að fjármagna verkefnið.
„Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýn. Þetta er mjög skemmtilegt verkefni og nýstárlegt,“ segir hún glöð í bragði að lokum.

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR