Listinn yfir 20 stærstu frumsýningarhelgar íslenskra mynda frá 1995 er forvitnilegur. Mýrin á stærstu opnunarhelgina og er jafnframt mest sótta myndin á þessu tímabili en þó að margar af tíu mest sóttu myndunum raði sér á þennan lista er eru margar þarna sem hlutu minni heildaraðsókn. Opnunarhelgin er því langt í frá öruggur mælikvarði á heildaraðsókn en gefur engu að síður ákveðnar vísbendingar.
Sérstaklega er áhugavert að skoða barnamyndirnar á listanum. Allar Sveppamyndirnar eru þarna en heildaraðsóknin – þó hún sé vissulega mjög góð á alla mælikvarða – staðnæmist á fjórða tugþúsundinu. Þá er Benjamín dúfa einnig sérstakt tilfelli með mjög stóra opnunarhelgi (yfir átta þúsund manns) en heildaraðsókn aðeins rúmlega tíu þúsund manns.
Englar alheimsins ná ekki inná topp 20 listann, myndin er í 24. sæti yfir stærstu opnunarhelgarnar, en er engu að síður næstmest sótta myndin á tímabilinu.
Til hliðsjónar má nefna að meðaltals opnunarhelgi á íslenska kvikmynd á tímabilinu er 3.245 manns. Um það bil 50 myndir af 130 á heildarlistanum ná því marki. Meðaltals opnunarhelgi 20 efstu myndanna er hinsvegar 9.379 manns og nær helmingur þeirra því marki.
Röð | Heiti myndar | Dreifingaraðili | Frumsýnd | Aðsókn opnunarhelgi | Heildaraðsókn |
---|---|---|---|---|---|
1 | Mýrin | Sena | okt.06 | 15.796 | 84.428 |
2 | Bjarnfreðarson | Samfilm | des.09 | 13.844 | 66.876 |
3 | Stella í framboði | Háskólabíó | des.02 | 12.922 | 28.497 |
4 | Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum | Samfilm | okt.14 | 12.225 | 32.623 |
5 | Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið | Samfilm | sep.10 | 11.025 | 37.506 |
6 | Algjör Sveppi og töfraskápurinn | Samfilm | sep.11 | 10.260 | 30.602 |
7 | Svartur á leik | Sena | mar.12 | 10.110 | 62.783 |
8 | Djúpið | Sena | sep.12 | 9.996 | 50.157 |
9 | Astrópía | Samfilm | ágú.07 | 9.523 | 46.285 |
10 | Algjör Sveppi og leitin að Villa | Samfilm | sep.09 | 8.933 | 32.204 |
11 | Benjamín dúfa | Samfilm/Stjornubio | des.95 | 8.352 | 10.498 |
12 | Hafið | Háskólabíó | sep.02 | 8.176 | 57.626 |
13 | Hetjur Valhallar: Þór | Sena | okt.11 | 8.099 | 23.976 |
14 | Djöflaeyjan | Islenska kvikm.samst. | nóv.96 | 7.781 | 74.754 |
15 | Vonarstræti | Sena | maí.14 | 7.671 | 47.982 |
16 | A Little Trip to Heaven | Sena | des.05 | 6.671 | 15.416 |
17 | Kaldaljós | Íslenska Kvikmyndasamsteypan | jan.04 | 6.636 | 19.900 |
18 | Jóhannes | Myndform | okt.09 | 6.635 | 36.223 |
19 | Íslenski draumurinn | Samfilm | sep.00 | 6.572 | 34.226 |
20 | 101 Reykjavík | 101 ehf | jún.00 | 6.350 | 26.902 |