Telma Huld Jóhannesdóttir sem leikur annað aðalhlutverkanna í kvikmyndinni Webcam sem frumsýnd var í gær, er í viðtali við Morgunblaðið. “Ég er alveg meir yfir því að fá að leika þessa konu því hún er svo fersk, segir Telma sem vílaði ekki fyrir sér að fækka fötum í þágu hlutverksins.“
Anna Marsibil Clausen hjá Morgunblaðinu skrifar:
Þrátt fyrir eftirtektarverða frammistöðu í Webcam á Telma ekki langan leiklistarferil að baki. Hún segir alltaf hafa verið ljóst að hún færi út í einhverskonar listsköpun og er nýútskrifuð af leiklistarbraut í Fjölbraut í Garðabæ. Webcam er hinsvegar fyrsta stóra verkefnið hennar.
„Þegar við vorum að gera þetta þá var þetta ekkert svona stórt verkefni. Þá var þetta bara ég að vinna aftur með Tona, Magga og Aroni að því að búa til bíó. Okkar vinátta hefur einkennst af því að við höfum gaman að því að skapa,“ segir hún og vísar í leikstjóra, framleiðanda og tökumann myndarinnar.
Leikstjórinn, Sigurður Anton Friðþjófsson, er einnig handritshöfundur kvikmyndarinnar. Webcam byggist að miklu leiti á samtölum og þótti undirritaðri merkilegt að upplifa á frumsýningu myndarinnar að geta í fyrsta sinn á ævinni séð sjálfa sig og vinkonur sínar í orðræðu og fasi aðalhetja í íslenskri kvikmynd.
„Það er einstakt hvernig Toni skrifar. Það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að vinna með þeim upprunalega fyrir tveimur árum í jóladagatali á YouTube,“ segir Telma.
„Ég er alveg meir yfir því að fá að leika þessa konu því hún er svo fersk. Ég veit ekki hversu oft ég hef fengið það grútleiðinlega hlutverk að vera „sæta stelpan“. Það er ógeðslega leiðinlegt því það er ekkert krefjandi og ekkert áhugavert en þarna var allt krefjandi, áhugavert og skemmtilegt.“
Tengdist persónunni strax
Sigurður Anton skrifaði Agú með Telmu í huga og kemur það því lítið á óvart þegar Telma jánkar, aðspurð hvort hún eigi margt sameiginlegt með persónunni sinni.
„Ég sá það strax að ég gæti blásið hana lífi. Ég er reyndar ekki með nein tattú og er alveg „straight“ en ég gat alveg tengt við hana á ýmsum öðrum levelum, kannski meira við hvað hún er jarðbundin og dygg vinkona.“
Þær Agú og Telma eiga það jafnframt sameiginlegt að hvorug þeirra er feimið fljóð og segist Telma ekki hafa átt í erfiðleikum með að leika í kynlífsatriðum í myndinni.
„Það er alltaf eitthvað örlíitið vandræðalegt í tvær-þrjár mínútur en ég hef alið úr mér mest alla spéhræðslu í gegnum leiklistina. Maður hefur þurft að skipta svo oft föt fyrir framan hvern sem er að það hættir að vera mál. Ég er mjög fylgjandi þeim byltingum sem hafa verið í gangi í samfélaginu s.s. #freethenipple og ég er á því að þessi mynd ýti undir þá umræðu.“
Sjá nánar hér: Leiðist að leika sætu stelpuna