Síðdegisútvarp Rásar 2 boðaði ritstjóra Klapptrés á sinn fund fyrr í dag. Þau vildu fá að vita hvað væri eiginlega að gerast með íslenskar kvikmyndir, í kjölfar allra þessara verðlauna og velgengni, nú síðast á Cannes en einnig á undanförnum mánuðum og misserum. Ritstjórinn freistaði þess að varpa örlitlu ljósi á málin.
Hlusta má á viðtalið hér – en að neðan er endursögn Bergsteins Sigurðssonar umsjónarmanns Síðdegisútvarpsins á því:
Blanda af heppni, tilviljunum og góðum myndum er helsta skýringin á velgengni íslenskra kvikmynda á alþjóðavettvangi að undanförnu, segir Ásgrímur Sverrisson. Hann segir freistandi að lýsa sumum myndanna sem gengið hafa vel sem „börnum Barna náttúrunnar.“
Velgengni Hrúta á kvikmyndahátíðinni í Cannes er nýjasta rósin í hnappagat íslenskra kvikmyndagerðarmanna á erlendum vettvangi. Fúsi hlaut þrenn verðlauna á Tribeca-hátíðinni í New York á dögunum, Hross í oss sópaði til sín verðlaunum út um allan heim, Jóhann Jóhannsson hlaut Golden Globe-verðlaun og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndatónlist og Á annan veg var endurgerð í Bandaríkjunum, að ógleymdri velgengni Baltasars Kormáks vestanhafs.
Nauðsynleg breidd
Ásgrímur Sverrisson, leikstjóri og ritstjóri Klapptrés, ræddi velgengni íslenskra kvikmynda á erlendum vettvangi í Síðdegisútvarpinu. Hann segir erfitt að draga stórar ályktanir „án þess að fara að belgja sig út í einhverju hjali um hvað allt sé stórkostlegt, en það er margt gott að gerast.“
Þetta sýni þó að þrátt fyrir erfiðleika og vesen sé mikill sköpunarkraftur og útsjónarsemi í íslenskri kvikmyndagerð, sem sé farin að bjóða upp á tiltölulega mikla og nauðsynlega breidd. „Þá kemur alltaf eitthvað sem slær í gegn, annað hvort með góðri aðsókn eða öðrum viðurkenningum.“
Svipaður tónn og í Börnum náttúrunnar
En eiga þær myndir sem best hefur gengið á erlendum hátíðum eitthvað sérstakt sameiginlegt? „Það er stundum freistandi að segja, þótt það eigi ekki við allar þessar myndir, að þetta séu börn Barna náttúrunnar. Það er ákveðinn tónn þaðan í sumum þessara mynda,“ segir Ásgrímur, og nefnir sem dæmi stuttmyndirnar Síðasti bærinn, sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna, og Hvalfjörð, sem hlaut verðlaun í Cannes.
Þessar myndir eigi það sameiginlegt að fjalla um lífið til sveita, sem sé hluti af langtímaminni Íslendinga. „Stór hluti af okkar kúltúr og sögu felst í því hvernig hefur verið að eiga við þetta land, við erum svo nýlega orðin borgarþjóð,“ segir Ásgrímur og telur hugsanlegt að það sé að hluta skýringin á velgengni þessara mynda erlendis. „Eitthvað sem okkur finnst vera hversdagslegt getur verið gríðarlega spennandi úti í hinum stóra heimi.“Borgarmyndir veki á hinn bóginn kannski minni athygli utan landssteinanna þar sem umhverfi þeirra sé kunnulegra.
Engin ávísun á velgengni
Ásgrímur varar þó við því að líta á það sem ávísun á velgengni að gera sveita- eða dýramynd. „Þessi umræða er þegar byrjuð,“ segir hann. „Það felur dauðann í sér. Það eina sem þetta snýst um er þín sannfæring fyrir einhverju efni. Þetta er ekki spurning um sveitamyndir eða borgarmyndir, þetta er spurning um góðar myndir.“