Safnað fyrir bættu aðgengi fólks í hjólastólum að Bíó Paradís

Hátíðin fór fram í Bíó Paradís.

Söfnun er hafin á Karolinafund sem hefur það markmið að bæta aðgengi fólks í hjólastólum að Bíó Paradís. Söfnunin felst í sölu aðgöngumiða og korta á sýningar Bíó Paradísar og er hægt að velja um marga möguleika til að styrkja málefnið, allt frá því að kaupa miða fyrir tvo á eina sýningu upp í tíu ára árskort í Bíó Paradís.

Í fréttatilkynningu frá Heimili kvikmyndanna, rekstraraðila Bíó Paradísar, segir m.a.:

Bíó Paradís hefur unnið með Ferilnefnd fatlaðra hjá Reykjavíkurborg að greiningu og tillögum að úrbótum og er áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga rúmar 6,5 milljónir króna. Verkefnið er mun stærra en húsið ræður við með rekstrinum og var því ákveðið að hefja söfnunina. Öllum ágóða  verður varið í að setja inn lyftur og koma fyrir salerni sem er aðgengilegt fólki í hjólastólum. Verkfræðistofan Mannvit mun annast undirbúning, kostnaðarmat og eftirlit með framkvæmdunum.

Bíó Paradís stendur fyrir afar fjölbreyttri starfsemi og er vonast til að söfnunin hljóti góðar viðtökur til að hægt sé að bæta aðgengi allra að húsinu. Um 18.000 leik- og grunnskólanemendur komið á sérstakar sýningar í kvikmyndalæsi sem þróaðar hafa verið af bíóinu, auk yfir 3.000 framhaldsskólanema. Þar er haldin eina barnakvikmyndahátíð landsins, auk fjölda viðburða og sérsýninga á kvikmyndum frá öllum heimshornum. Bíó Paradís er einnig mikilvægur vettvangur fyrir innlent kvikmyndagerðarfólk en þar hafa verið sýndar yfir 200 íslenskar stutt- og heimildamyndir frá opnun bíósins árið 2010.

Bíó Paradís er eina listræna kvikmyndamenningarhús landsins, auk þess að vera eina kvikmyndahúsið sem eftir er í miðbæ Reykjavíkur. Það er rekið án hagnaðarsjónarmiða af sjálfseignarstofnunni Heimili kvikmyndanna ses. sem stofnað var af fagfélögum í kvikmyndagerð. Bíó Paradís er meðlimur í Europa Cinema og CICAE (The International Confederation of Art Cinemas).

Söfnunin er á www.karolinafund.com/project/view/810

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR