Ártún, stuttmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, hlaut sérstök dómnefndarverðlaun í stuttmyndakeppni RiverRun International Film Festival sem fram fór í Winston-Salem í Norður Karólínu í Bandaríkjunum 16. – 26. apríl. Fyrir ári síðan vann önnur stuttmynd Guðmundar Arnars, Hvalfjörður, einnig sérstök dómnefndarverðlaun á hátíðinni.
Þetta eru fjórðu alþjóðlegu verðlaunin sem Ártún hlýtur síðan hún var frumsýnd á RIFF hátíðinni í október á síðasta ári. Áður hafði hún unnið til Gullna Skjaldarins á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago, aðalverðlaun alþjóðlegu stuttmyndahátíðarinnar í Brest í Frakklandi og aðalverðlaun FEC hátíðarinnar í Reus á Spáni. Ártún hefur nú verið valin til þátttöku á yfir 20 alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Þá var hún tilnefnd fyrir bestu leikmynd (Linda Stefánsdóttir) á Edduverðlaunahátíðinni 2015.
Ártún fjallar um ungan strák sem langar að upplifa sinn fyrsta koss en ekkert gengur í litla þorpinu þar sem hann býr. Bestu vinir hans segja frá stelpum í borginni sem fara í vímu og eru til í allt þegar þær reykja sígarettur. Hann á erfitt með að trúa því en ákveður samt að fara með þeim til borgarinnar og sjá hvað gerist.
Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstýrir og skrifar handritið að Ártúni en myndin er framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures í samstarfi við Sagafilm og hið danska Fourhands Film. Rúnar Rúnarsson er meðframleiðandi og kvikmyndataka er í höndum Norðmannsins Sturla Brandth Grøvlen, sem vann nýlega Silfurbjörn fyrir framúrskarandi listrænt framlag á Berlinale hátíðinni. Verðlaunin hlaut hann fyrir kvikmyndatöku sína í Victoria, kvikmynd sem er 140 mínútur að lengd og er öll tekin upp í einni töku. Grøvlen er einnig tökumaður Hrúta eftir Grím Hákonarson sem frumsýnd verður á Cannes hátíðinni í maí.
Sjá nánar hér: Ártún hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á RiverRun kvikmyndahátíðinni | Kvikmyndamiðstöð Íslands