Jóhann Jóhannsson tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í „The Theory of Everything“

Jóhann Jóhannsson með Golden Globe verðlaunin í hendi.
Jóhann Jóhannsson með Golden Globe verðlaunin í hendi.

Það þarf fæstum að koma á óvart að Jóhann Jóhannsson tónskáld hafi verið fyrr í dag tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í The Theory of Everything. Bæði er búið að spá þessu af ýmsum undanfarna mánuði og svo hlaut Jóhann Golden Globe á dögunum sem gjarnan er sterk vísbending um Óskarinn. Jóhann er einnig tilnefndur til BAFTA-verðlaunanna bresku.

Á vef RÚV kemur eftirfarandi meðal annars fram:

Jóhann er sjötti Íslendingurinn sem hlýtur tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar Börn náttúrunnar var tilnefnd sem besta erlenda myndin. Björk og Sjón voru tilnefnd til besta lagsins fyrir framlag sitt til myndarinnar Dancer in the Dark og þeir Rúnar Rúnarsson og Þórir Snær Sigurjónsson voru tilnefndir fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn.

Jóhann etur kappi við þá Alexandre Desplat, sem fékk tilnefningar fyrir tónlist í tveimur myndum, The Grand Budapest Hotel og The Imitation Game; Hans Zimmer sem samdi tónlistina í Interstellar og Gary Yershon sem er tilnefndur fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Mr. Turner.

Kvikmyndirnar sem voru tilnefndar til Óskarsverðlauna sem besta myndin eru: American Sniper, Birdman (or The Unexpected Virtue of Ignorance), Boyhood, The Grand Budapest Hotel, The Imitation Game, Selma, The Theory of Everything og Whiplash.

Birdman (or The Unexpected Virtue of Ignorance) og The Grand Budapest Hotel hlutu hvor um sig níu tilnefningar. The Imitation Game hlaut átta tilnefningar.

Óskarsverðlaunin verða afhent aðfaranótt 23. febrúar og verður afhöfnin sýnd beint á RÚV.

Hér má sjá listann yfir allar tilnefningarnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR